09:00
{mosimage}
(TaKesha Watson)
Leikstjórnandinn TaKesha Watson mun ekki snúa aftur í raðir Keflvíkinga en hún hefur verið einhver sterkasti erlendi leikmaður íslenska kvennakörfuboltans síðustu tvö tímabil. Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Íslandsmeistara Keflavíkur staðfesti þetta í samtali við Karfan.is og greindi einnig frá því að Keflvíkingar væru við það að klára samning við annan bandarískan leikmann.
Watson fór á kostum með Keflavík á síðustu leiktíð og gerði að jafnaði 27,3 stig að meðaltali í leik og var einnig valin besti leikmaður úrslitakeppninnar er Keflvíkingar hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum.
,,Annars er allt frábært að frétta úr okkar herbúðum. Mannskapurinn er byrjaður að æfa og gengur flott. Bryndís Guðmundsdóttir er að komast í gang eftir krossbandaslit og Marín Rós Karlsdóttir á góðum batavegi eftir aðgerð útaf krossbandaslitum. Birna Valgarðsdóttir var að koma úr speglun sem gekk vel og Svava Stefánsdóttir er komin á fullt eftir barnsburð. Þá er Rannveig Randversdóttir byrjuð að æfa aftur eftir aðgerð þannig að þetta er allt á réttri leið hjá okkur,” sagði Jón Halldór við Karfan.is.
,,Eina spurningamerkið er Margrét Kara Sturludóttir en hún er að kanna nám erlendis,” sagði Jón Halldór. ,,Varðandi Watson þá sagði umboðsmaður hennar að hann vildi sjá hana spila í Evrópukeppninni. Tvö stór félög væru að bera víurnar í hana svo Watson er að skoða þessi mál og kemur ekki aftur til Keflavíkur,” sagði Jón Halldór.



