Eftir að Jón Arnór og Jakob Sigurðarson skrifuðu undir hjá KR hafa sögusagnir gengið um að Logi Gunnarsson væri jafnvel að stefna sömu leið , þ.e. að taka sér frí frá atvinnumennskunni. Sögur allt frá því að Logi væri á leiðinni til KR og til þess að hann myndi leika með sínu heimaliði Njarðvík hafa flogið sem eldur um sinu á milli fólks í íslenska “körfubolta heiminum” (sem er nú ekki stór) Í samtali við Karfan.is sagði Logi að unnið sé í hans málum sem stendur.
“Ég er enn sem komið er að vinna í því að spila áfram erlendis. Ekkert er komið í ljós ennþá en ég er alls ekkert að drífa mig í þessum efnum. Ég vil ekki fara erlendis að spila bara til að spila þar. Tilboðin verða að vera góð og henta mér og minni fjölskyldu” sagði Logi.
“Þetta er ekki komið svo langt að ég sé að hugsa um að spila hér á Íslandi en það væri langt frá því að vera slæm málalok. Sagði ekki einhver að Heima væri best. Verkefnið núna er bara með landsliðinu og ég einbeiti mér að því sem stendur” bætti Logi við.



