spot_img
HomeFréttirFlautukarfa Jason tryggði KR Poweradebikarinn

Flautukarfa Jason tryggði KR Poweradebikarinn

18:43
{mosimage}

(Powerademeistarar KR 2008)

KR-ingar eru Powerademeistarar í fyrsta sinn eftir hreint ótrúlegan sigur á Grindavík í úrslitaleik karla sem fram fór í Laugardalshöll í dag. Það var Bandaríkjamaðurinn Jason Dourisseau sem gerði sigurkörfu leiksins úr þriggja stiga skoti eftir stoðsendingu frá Helga Má Magnússyni. Páll Axel Vilbergsson jafnaði metin í 95-95 með þris þegar 8 sekúndur voru til leiksloka en KR-ingar ráku smiðshöggið og í dag fögnuðu þeir sínum fyrsta sigri í fyrirtækjakeppni KKÍ sem í dag hetir Poweradebikarinn. Allt gengur KR í haginn þessa dagana enda hefur liðið ekki tapað leik á undirbúningstímabilinu og urðu nýverið Reykjavíkurmeistarar.

Mikill hraði var á báðum liðum strax í upphafi leiks og skiptust þau á forystunni. Brenton Birmingham kom snemma með tvo þrista fyrir Grindavík en KR jafnaði metin í 18-18 með glæsilegu samspili frá Jóni Arnóri og Jason þar sem Jason tróð með tilþrifum eftir stoðsendingu frá Jóni. Grindvíkingar reyndust þó sterkari á lokaspretti fyrsta leikhluta og leiddu 28-32 eftir skemmtilegan opnunarleikhluta.

Grindvíkingar skiptu yfir í svæðisvörn í öðrum leikhluta og gaf það vel til að byrja með. Gulum tókst að hægja lítið eitt á KR en Vesturbæingar voru aldrei langt undan. Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 51-51 eftir skemmtilegan fyrri hálfleik. Jason Dorisseau fór mikinn í liði KR með 19 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar í fyrri hálfleik en hjá Grindavík var Damon Bailey iðinn með 17 stig og 7 fráköst.

Í þriðja leikhluta virtist allt benda til þess að KR ætlaði að stinga af og komust röndóttir í 70-60 en þá hrukku Grindvíkingar í gang með þá Brenton Birmingham og Helga Jónas í broddi fylkingar og náðu að komast yfir með glæsilegu gegnumbroti hjá Brenton og staðan 72-73 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

{mosimage}

Spennan var rafmögnuð í lokaleikhlutanum og þegar sex mínútur voru til leiksloka stálu KR boltanum og komu honum á Jason sem brunaði upp völlinn og tróð með tilþrifum og staðan orðin 92-88. Jón Arnór Stefánsson kom svo með mikilvægan þrist og breytti stöðunni í 95-90 KR í vil þegar 1.57 mín. voru til leiksloka. Grindvíkingar náðu að jafna metin þegar 8 sekúndur voru eftir með þriggja stiga körfu frá Páli Axeli. KR átti síðustu sókn leiksins en Grindvíkingar brutu þegar 4 sekúndur voru eftir en KR voru ekki komnir í skotrétt og tóku því innkast. Helgi Már Magnússon fékk boltann og fann Jason Dourisseau sem var lygilega opinn og hann þakkaði pent fyrir sig með sigurkörfu leiksins og lokatölur því 98-95 KR í vil.

Hallargestir fengu magnaðan leik í dag og ef hægt er að bjóða upp á svona bolta á undirbúningstímabilinu þá ættu körfuknattleiksunnendur að láta sér hlakka verulega til Íslandsmótsins.

Stigaskor KR:

Jason Dourisseau 29 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar, Jón Arnór Stefánsson 18 stig, 10 stoðsendingar og 4 stolnir boltar, Jakob Sigurðarson 18 stig og 9 stoðsendingar, Helgi Magnússon 11, Darri Hilmarsson 11, Fannar Ólafsson 8 og Skarphéðinn Ingason 4.

Stigaskor Grindavíkur:
Brenton Birmingham 26 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 21, Damon Bailey 19, Helgi Jónas Guðfinnsson 11, Þorleifur Ólafsson 9, Páll Kristinsson 6, Guðlaugur Eyjólfsson 2 og Arnar Freyr Jónsson 1.

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -