spot_img
HomeFréttirKörfuboltakreppan: Bölvun eða blessun?

Körfuboltakreppan: Bölvun eða blessun?

09:10
{mosimage}

Það hefur vart farið framhjá mönnum þær breytingar sem eiga sér stað þessa dagana í íslenskum körfuknattleik. Erlendu leikmennirnir eru á leið heim og eftir standa þeir íslensku. Á þessum erfiðu tímum veltir maður þó fyrir sér hvort að deildin væri ekki betur sett ef reynt væri með lagasetningu að takmarka enn frekar fjölda erlendra leikmanna í deildinni?

Nú ríkir launaþak í íslenskum körfuknattleik en það hefur þó ekki komið í veg fyrir að fjöldi erlendra hefur fjölgað hjá liðunum á undanförnum árum. Lið hafa sveigt reglurnar og komist hjá “kanareglunni” í þeim tilgangi að fá fleiri erlenda leikmenn til liðsins. Fyrir ekki svo mörgum árum tíðkaðist það að aðeins einn erlendur leikmaður spilaði með liðunum en sú þróun hefur orðið á þann veg að heil og hálf byrjunarliðin eru skipuð af erlendum leikmönnum. Þessi þróun er mjög neitkvæð að mínu mati og eru margir körfuboltaaðdáendur óánægðir með þessar breytingar.

Með því að takmarka erlenda leikmenn yrði deildin ekki aðeins skemmtilegri að fylgjast með, heldur einnig mun persónulegri. Íslensk nöfn myndu prýða fyrirsagnir frétta og tölfræði leikjanna. Ungir leikmenn myndu frekar fá tækifæri sem myndi efla íslenskan körfuknattleik til muna. Er ekki takmarkið okkar alltaf að efla körfuboltaleikmenn og landslið okkar?

Liðin myndu spara stórar upphæðir sem fara í laun hjá erlendu leikmönnunum og þær upphæðir mættu nota í aðra starfsemi liðanna t.d. yngriflokka starfsemi eða lækka miðaverð á leiki. Að hafa 2-3 erlenda leikmenn á launaskrá í þeim tilgangi að ná yfirburðum í deildinni, virkar mikil peningasóun þegar önnur lið gera slíkt hið sama og keppast liðin um að ráða til sín erlenda leikmenn. Yfirburðirnir verða engir þar sem öll liðin eru marga “kana” og miklir peningar fara í að borga þessum leikmönnum himinhá laun.

Hví ekki að einblína á íslensku leikmennina og láta peninga í aðra gagnlega hluti? Það verður forvitnilegt að sjá hvernig komandi tímabil spilast og fylgjast með íslenskum leikmönnum njóta sín og vaxa hjá liðum sínum.

Arnar Freyr Magnússon – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -