spot_img
HomeFréttirKR sigur í Röstinni: Íþróttin aftur orðin að liðsíþrótt!

KR sigur í Röstinni: Íþróttin aftur orðin að liðsíþrótt!

00:31
{mosimage}

(Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir á ferðinni í kvöld)

Ef leikur Grindavíkur og KR í Grindavík er vísbending um komandi  keppnistímabil í Iceland Express deild kvenna eiga unnendur kvennakörfu von á góðu í vetur. Vesturbæjarliðið hélt heim með sigur 63-73 eftir hörkuleik.

Gestirnir leiddu eftir fyrsta leikhluta 15-13 en Grindvíkingar rifu sig upp í öðrum leikhluta og voru 33-31 yfir í leikhléi. Þær höfðu undirtökin í upphafi þriðja leikhluta og beittu þá stífri pressuvörn á KR-inga. Þær röndóttu náðu að leysa hana undir forystu Hildar Sigurðardóttur. Hún bar boltann upp og braust upp að körfunni þegar þess þurfti. Í eitt skiptið var hún nánast komin niður í gólf með tvær Grindavíkurstelpur eins og gamma yfir sér, en reif sig upp, skildi þær gulu eftir ráðþrota í gólfinu og braust upp að körfunni.

Fyrir lok leikhlutans voru KR-ingar komnir með tveggja stiga forskot, 50-52. Í fjórða leikhluta fraus sóknarleikur Grindvíkinga. Ýmist frusu þær fyrir skot eða töpuðu boltanum og færðu KR-ingum ódýr hraðaupphlaup. Meira að segja á lokamínútunni, þegar nauðsynlega þurfti skot í von um að minnka muninn, tók engin af skarið og klukkan næstum rann út. Það var stærra vandamál heldur en dómararnir sem sýndu æstum þjálfara Grindavíkur mikla þolinmæði.

Í liði KR varð Hildur stigahæst með 21 stig, en hún tók að auki níu fráköst og gaf átta stoðsendingar. Sigrún Ámundadóttir skoraði tólf stig. Í liði Grindavíkur skoraði Jovana Stefánsdóttir sextán stig og Ólöf Pálsdóttir fjórtán. Hvorugt liðið er með erlendan leikmann og ef til vill átti það sinn þátt  í skemmtanagildi leiksins – íþróttin er aftur orðin að liðsíþrótt.


Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0zNTA=

Texti og myndir: Gunnar Gunnarsson

{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir)

Fréttir
- Auglýsing -