11:00
{mosimage}
(Sveinbjörn Claessen)
Síðustu ár hafa ÍR-ingar verið að mjaka sér stöðugt lengra í úrslitakeppninni og í fyrra datt liðið út í undanúrslitum gegn Keflavík eftir skemmtilegan slag. Nate Brown stýrði þá ÍR eins og hershöfðingi en að lokinni síðustu leiktíð er aðeins Eiríkur Önundarson eftir með reynslu í leikstjórnendastöðunni. Brown hvarf á braut og samdi við Snæfell og Ólafur J. Sigurðsson gekk í raðir Stjörnunnar. Njarðvíkingurinn Ólafur Aron Ingvason kom til ÍR í sumar en hann er reyndur leikstjórnandi en reynsla hans er bundin við yngri flokka og 1. deild. Leikstjórnendastaðan hjá ÍR verður því vandleyst í vetur.
Það kemur í hlut Sveinbjarnar Claessen, Hreggviðar Magnússonar og Ómars Sævarssonar að bera ÍR í vetur með liðsinni Eiríks Önundarsonar. Eiríkur var á því að hætta að lokinni síðustu leiktíð en allt kom fyrir ekki, bakterían heltók hann.
Hreggviður hefur lítið sem ekkert verið með ÍR á undirbúningstímabilinu sökum meiðsla og mikilvægt fyrir ÍR að fá hann strax í gang enda Hreggviður einn af sterkustu leikmönnum deildarinnar. Þá verður fróðlegt að fylgjast með Þorsteini Húnfjörð og hvernig honum muni ganga að berjast við aðra miðherja deildarinnar en Þorsteinn leysti Tahirou Sani af í fyrra og því ekki með margar mínútur á bakinu hjá ÍR fyrr en nú.
Jón Arnar Ingvarsson verður áfram í brúnni hjá ÍR og hefur hann unnið gott starf með liðið síðustu ár en að þessu sinni fæst ekki séð að ÍR geri jafn fallegar rósir og á síðustu leiktíð. Karfan.is spáir þó ÍR inn í síðasta sæti úrslitakeppninnar en strákarnir úr Breiðholti hafa sýnt að þar líður þeim vel.
Ritstjórn Karfan.is
{mosimage}
(Hreggviður Magnússon)



