13:30
{mosimage}
(Gunnar Einarsson)
Var Gunnar Einarsson á hlaupabrettinu og í járnum í allt sumar? Öldungurinn sem hóf sinn feril með meistaraflokki Keflavíkur sem unglamb fór algerlega á kostum á síðustu leiktíð og átti ríkulegan þátt í velgengni Keflavíkurliðsins. Gunnar var valinn besti maður úrslitakeppninnar og eflaust horfa nú margir til hans í Keflavík við gjörbreytt landslag í íslenska boltanum.
Eftirminnilegt var að fyrir síðustu leiktíð var Keflvíkingum spáð dræmu gengi en þeir bitu allt svoleiðis hjal af sér og Sigurður ,,eitt ár í senn“ Ingimundarson kom færandi hendi í sumarbyrjun með bros á vör, rós í annarri og Íslandsmeistaratitil í hinni. Vafalítið einhver reynslumesti þjálfari landsins og ekki á færi hvers sem er að mæta með lærisveina sína í Toyotahöllina gegnt Sigurði.
Í vetur verður fróðlegt að fylgjast með landsliðmönnunum ungu þeim Þresti Leó Jóhannssyni, Sigurði Þorsteinssyni og Herði Axeli Vilhjálmssyni. Allt gæðaleikmenn sem hafa látið mikið til sín taka í yngri landsliðum Íslands og munu þurfa að skila mun stærra hlutverki af sér þessa leiktíðina en nokkurn tíman áður. Ábyrgð sem þessir ungu en reyndu leikmenn taka örugglega fagnandi.
Sverrir Þór Sverrisson mun síðan reynast mörgum sóknarmanninum illur viðureignar og verður fremstur í 2-2-1 pressu Keflavíkur sem liðið hefur beitt til fjölda ára með góðum árangri. Bæði við að skafa sekúndur af skotklukkunni og þjarma að öðrum liðum.
Keflvíkingar eiga titil að verja þetta árið og gefa hann ekki svo auðveldlega eftir enda hefur Íslandsmeistaratitillinn verið mestmegnis á Suðurnesjum síðustu tvo áratugina eða svo.
Ritstjórn Karfan.is
{mosimage}
(Þröstur Leó Jóhannsson)



