11:49
{mosimage}
(Baldur Ingi Jónasson)
,,Það má sjálfsagt líkja körfuboltaiðkun við hina verstu fíkn, nema hvað að hún er algerlega á jákvæðu nótunum,“ sagði Baldur Ingi Jónasson leikmaður Þórs á Akureyri. Baldur sagði í sumar að nú færu skórnir upp á hilluna og að ferlinum væri lokið sem slíkum. Glöggir körfuknattleiksáhugamenn sáu þó Baldri bregða fyrir í leikjum Þórs á dögunum og ljóst að eitthvað hafði gefið sig hjá kappanum eins og hann opinberar hér í samtali við Karfan.is. Það reyndist honum erfitt að slíta sig frá körfunni og segir Baldur að ýmis fráhvarfseinkenni hafi farið að gera vart við sig.
Baldur lék lengst af með KFÍ en er nú hjá Þór á Akureyri og segir Baldur að hann hlyti að hafa verið með óráði síðastliðið vor þegar hann ákvað að hætta í körfubolta. ,,Meginástæðan fyrir því að mig langaði til að byrja aftur er einfaldlega sú að körfubolti er bara svo einstaklega skemmtileg íþrótt að það er erfitt að slíta sig frá henni auk þess sem leikmannahópurinn, stjórnin og allt andrúmsloft hérna hjá Þór er alveg einstakt sem fyrr. Ég byrjaði aðeins að æfa aftur núna í haust, svona tvisvar í viku, en síðan urðu þessar æfingar alltaf fleiri og fleiri uns ég mætti bara á allar æfingar. Þá var ekki aftur snúið og sjálfsagt auðveldaði það ákvörðunina þegar ljóst var að meginþorri leikmanna í Iceland Express deildinni yrðu Íslendingar,“ sagði Baldur sem varð eins og alger tuska við það að hætta að hreyfa sig.
,,Í mínu tilviki var það líka svo að ýmis fráhvarfseinkenni fóru að gera vart við sig, bæði líkamleg og andleg. Maður var eins og alger tuska þegar maður hætti að hreyfa sig jafn mikið og maður gerði, auk þess sem kaloríuneyslan var sú sama og þegar maður var að æfa á fullu, með tilheyrandi afleiðingum. Þetta er nú, að ég held, ákveðið mynstur sem menn ganga í gegnum þegar þeir ákveða að hætta, sérstaklega hvað varðar bumbusöfnun. Það hefur margoft sýnt sig að menn eiga í erfiðleikum með þessa ákvörðun og snúa því jafnan til baka og æfa þar til að eitthvað gefur sig eða þá að áhuginn dvínar. Ég skal þó viðurkenna að ég ætlaði ekki að vera sá maður sem hætti við að hætta, þar sem ég tel mig nú sjaldnast ganga á bak orða minna. Í þessu tilviki mun það þó vera svo og ég vona að flestir virði það við mig þar sem tilgangurinn er í versta falli jákvæður. Það er því ljóst að engar yfirlýsingar um það að hætta munu koma frá mér í framtíðinni. Maður lærir af reynslunni,“ sagði Baldur sem er í 5. sæti með Þór Akureyri í Iceland Express deildinni.
Næsti leikur Þórs er gegn Snæfell í Stykkishólmi og þá má væntanlega búast við því að Baldur smelli niður svo sem einum þrist af sinni alkunnu snilld.
Leikmannaferill Baldurs í úrvalsdeild samkvæmt KKÍ:
http://kki.is/tolfraedi_ferill_leikmanns.asp?Felaganumer=26500



