spot_img
HomeFréttirKristinn Óskarsson á tímamótum: 20 ár í úrvalsdeild

Kristinn Óskarsson á tímamótum: 20 ár í úrvalsdeild

15:10
{mosimage}

(Kristinn Óskarsson)

Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson fagnar 20 ára starfsafmæli í kvöld þegar hann dæmir viðureign Stjörnunnar og Njarðvíkinga í Ásgarði í Garðabæ. Kristinn dæmdi í fyrsta sinn í úrvalsdeild þann 23. október 1988 þegar Njarðvíkingar tóku á móti Tindastól í Ljónagryfjunni. Kristinn dæmdi þá með Jóni Otta Ólafssyni en það var einmitt fyrsti leikurinn sem Valur Ingimundarson lék gegn Njarðvíkingum en Valur er fyrst og fremst þekktur fyrir afrek sín á parketinu íklæddur grænu. Valur þjálfar Njarðvíkinga í dag og hittir því Kristinn að nýju en nú á 20 ára starfsafmæli dómarans. Karfan.is ræddi við Kristinn í tilefni þessa merka áfanga en hann hefur þegar fundið sinn eftirmann þó hann sé ekki á þeim buxunum að hætta.
 

,,Þetta er langur tími og í dag er fullt af guttum að spila í deildinni sem voru ekki fæddir þegar ég byrjaði að dæma,“ sagði Kristinn kátur í bragði en talið barst fljótt að Jóni Otta sem Kristinn leit mikið upp til. ,,Maður beygði sig og bugtaði fyrir honum og núna finn ég það hjá yngri dómurum í minn garð en ég vil alls ekki vera trítaður þannig. Samt er það fyndið hvernig sagan fer í hringi,“ sagði Kristinn sem í kvöld dæmir sinn 467. leik í úrvalsdeild.

,,Menn njóta ákveðinnar virðingar fyrir að endast svona lengi í þessu. Jafnvel á vinnustöðum úti í bæ er borin virðing fyrir þeim sem hafa verið lengi að störfum,“ sagði Kristinn sem í dag starfar hjá Securitas. Kristinn er dómari úr Keflavík og eins og öllum er kunnugt eru Njarðvíkingar og Keflvíkingar litlir bræður í leik þó svo þeir brosi til hvers annars utan vallar. Hvernig var það fyrir óharðnaðan táning úr Keflavík að dæma sinn fyrsta úrvalsdeildarleik í Ljónagryfjunni?

,,Það hafa komið tímar þar sem þetta hefur verið óþægilegt og erfitt og svo vissulega tímar þar sem þetta hefur verið ánægjulegt og skemmtilegt. Viðmótið til mín frá Njarðvíkingum hefur jafnan farið eftir því hvernig gengi Njarðvíkinga í deildinni hefur verið. Njarðvík, Grindavík og KR eru klúbbar sem hafa alltaf verið með lið í efstu deild og þar hefur maður myndað góð tengsl. Sérstaklega í Njarðvík og Grindavík. Þetta eru litlir klúbbar innan gæslappa og þarna hittir maður sama fólkið ár eftir ár og þessi faglegu kynni af þeim hafa hjálpað manni mikið í gegnum tíðina. Þó Njarðvíkingum gangi ekki vel þessa stundina á ég ekki von á því að allt verði vitlaust í minn garð í kvöld. Hin síðari ár finnst mér ég hafa mætt miklum skilningi og jákvæðni og í ljósi þessa hafa nú ekki verið nein leiðindi millum mín og Njarðvíkinga í langan tíma,“ sagði Kristinn sem er spenntur fyrir því að hitta Val Ingimundarson í kvöld.

{mosimage}

,,Það endist enginn í keppnisíþróttum nema vera metnaðarfullur og kappsfullur og af svoleiðis fólki getur líka gustað svolítið endrum og sinnum. En svona fólki ber ég mikla virðingu fyrir og þó maður taki rimmu við einhverja þá eru það alls ekki persónuleg illindi því við erum jafn fljót niður líka. Valur er metnaðarfullur og kappsfullur og því hlakka ég til að hitta hann í kvöld. Kappmikið fólk laðast að íþróttum og okkur dómurum getur líka hlaupið kapp í kinn og maður getur gert mistök eins og aðrir og það er bara hluti af leiknum,“ sagði Kristinn en hvernig hefur dómarastarfið haft áhrif á líf hans?

,,Það stendur hátt upp úr hjá mér öll ferðalögin og tíminn sem hefur farið í þetta og vináttan sem maður hefur þróað. Álagið á fjölskylduna mína hefur verið nánast ómanneskjulegt, bæði fjarveran frá heimilinu og oft þessi neikvæða umræða sem starfinu fylgir. Neikvæðu hliðar dómgæslunnar hafa bitnað meira á fjölskyldu minni heldur en mér og það er miður. Þegar ég horfi samt til baka er ég afar sáttur og stoltur,“ sagði Kristinn um síðustu 20 ára í dómgæslunni.

Íslenskir dómarar hafa undanfarin ár verið duglegir við að afla sér menntunar í dómgæslu og segir Kristinn þá mun faglegri í allri nálgun í dag. ,,Við fáum meiri fræðslu og verjum meiri tíma í undirbúning en íslenskir dómarar eru ekki öðruvísi en þeir erlendu. Fræðslunni er bara ekki ýtt að okkur hér heima heldur höfum við af okkar einskæra metnaði sótt þessa fræðslu sjálfir,“ sagði Kristinn sem vissulega hefur hugmynd um hvernig hann vilji sjá umhverfið hér á Íslandi þróast á næstu árum.

,,Ég vil sjá meiri fagmennsku í framkvæmd leikja og í öllum aðbúnaði. Verja þarf meiri tíma og fjármunum í þjálfun og menntun dómara og á næstu 2-3 árum vil ég sjá fleira ungt fólk í dómgæslu. Það er alls ekki ljótt að viðurkenna það að það er fínn aukapeningur í dómgæslunni en á sínum tíma átti maður liggur við bara að skammast sín fyrir að þiggja laun fyrir að dæma. Í dag er dómgæslan ágætlega borguð og við höfum náð fram ákveðnum kjarabótum. Að fá greitt fyrir dómgæsluna verður samt aldrei hvatning fyrir mig. Það sem ég væri líka til í að sjá er að KKÍ myndi fara í markaðsherferð til að laða að yngra fólk í dómarastéttina,“ sagði Kristinn en sonur hans Ísak hefur þegar hafið dómgæslustörf en hann er 15 ára gamall.

{mosimage}

,,Ég er búinn að smita strákinn og hann er rosalega áhugasamur. Mér finnst hann mjög efnilegur dómari svo það þarf að finna honum eðlileg verkefni enda tíminn nægur hjá honum,“ sagði Kristinn en ætlar hann sjálfur að dæma í 20 ár í viðbót?

,,Nei! Allavega í tvö ár í viðbót, núna er ég í ársfríi frá alþjóðadómgæslunni en ætla samt ekkert að vera með yfirlýsingar um að hætta á næstunni því það er ekkert á teikniborðinu, svo hefur maður líka alltaf leyfi til að skipta um skoðun,“ sagði Kristinn kátur í bragði.

Kristinn Óskarsson var 19 ára gamall þegar hann dæmdi sinn fyrsta leik í úrvalsdeild og síðar það tímabil dæmdu hann og Jón Guðmundsson félagi hans saman leik í úrvalsdeild þá báðir 19 ára gamlir. Kristinn segir og vonar að það gerist ekki aftur að jafn ungir menn dæmi saman leik í efstu deild hér á Íslandi en er ötull hvatamaður þess að ungu fólki verði gefin góð tækifæri í dómgæslunni og að þau sjái hvaða tækifæri hún hafi upp á að bjóða.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -