spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar völtuðu yfir ÍR í öðrum leikhluta

Keflvíkingar völtuðu yfir ÍR í öðrum leikhluta

Það voru Keflvíkingar sem fóru með sigur af hólmi og það nokkuð auðveldlega gegn ÍR á heimavelli í kvöld. 93-69 var lokastaða leiksins og Keflvíkingar vel að þessum sigri komnir gegn lánlausum ÍRingum sem hófu leikinn þó með miklum krafti

Eins og fyrr segir þá voru það gestirnir sem byrjuðu að miklu krafti. Þeir léku við hvurn sinn fingur á meðan vörn Keflvíkinga var hreinlega sofandi á verðinum. Það var tilturlega einfaldur bolti sem ÍR lék í byrjun leiks og það dugði til að skila þeim stöðunni 11-20 eftir fyrsta fjórðung.


Þá skelltu Keflvíkingar í lás. Keflvíkingar komu dýrvitlausir til leiks og ætluðu svo sannarlega ekki að láta vaða yfir sig á skítugum skónum á sínum eigin heimavelli. Þeir tóku 20-0 “run” á gestina og voru allt í einu komnir í bílstjórasætið í leiknum. Lið ÍR vissu varla hvað á þá hafði skollið fyrr en staðan var orðinn 46-26 Keflvíkinga í vil og flautan gall til hálfleiks.

ÍR liðið virtist þrátt fyrir þennan skell ekki vera dauðir úr öllum æðum og voru fljótlega búnir að minnka muninn niður í 12 stig í byrjun seinni hálfleiks. En það tók ekki langan tíma fyrir heimamenn að skrúfa fyrir þann leka sem myndaðist í vörn þeirra og héldu dampi út þriðja fjórðung.

11 stig skildu liðin fyrir síðasta fjórðung og hefði þetta allt eins geta orðið leikur úr þessari stöðu. En heimamenn voru ekki á þeim buxunum og gáfu í.   Þegar síðasti fjórðungur var hálfnaður voru heimamenn komnir með 20 stiga forskot og rest leiksins einungis formsatriði. Sem fyrr segir endaði leikurinn með 24 stiga verðskulduðum sigri Keflvíkinga að þessu sinni.

Gunnar Einarsson sem er í feiknar formi þessa daganna átti flottan leik með 25 stig og Ísafjarðartröllið, Sigurður Þorsteinsson kom honum næstur með 22 stig og bætti við 10 fráköstum.  Hjá gestunum var í raun engin sem skaraði framúr en stigahæstur þeirra var Sveinbjörn Claessen með 18 stig.  Líklega vilja ÍRingar gleyma þessum leik sem allra fyrst, að undanskildum fyrsta fjórðung þar sem þeir léku stórgóðan bolta.

 

Tölfræði leiksins.  

Fréttir
- Auglýsing -