18:00
{mosimage}
(Jason er kominn aftur á klakann)
Jason Pryor hefur gengið til liðs við Hamar og kemur til með að spila með liðinu gegn KFÍ sem fer fram nú eftir klukkustund. Jason er alls ekki ókunnugur íslenska boltanum og verður Hamar þriðja liði sem Jason spilar fyrir undir stjórn Ágústar S. Björgvinsonar en fyrr í vikunni sögðu Hamarsmenn upp samningi við Sir Valiant Brown. „Jason hafði samband við mig og spurðist fyrir hvort að ég vissi um einhver lið sem vantaði leikmann og það vildi svo skemmtilega til að við vorum búnir að taka þá ákvörðun að senda Brown heim.”
Ágúst sagði jafnframt að hann hafi sagt Jason frá stöðu mála hjá Hamri og gaf honum ástæðuna fyrir uppsögn Brown. „Hann vantaði lið til að spila með og var tilbúinn að koma til okkar vegna kunningsskap okkar. Hann kemur til með að spila næstu leiki með okkur til að byrja með en það er áhugi á að fá hann til að vera með út veturinn ef að efnahagsstaðan í landinu lagast en það er ekkert tryggt í þeim málum.”
Jason Pryor kom fyrst til Vals og spilaði með þeim í Intersport deildinni 2002-2003. Hann spilaði 11 leiki og skoraði í þeim 32,8 stig að meðaltali. Hann var aftur mættur til Vals tímabilið 2004-2005 og skoraði 35 stig að meðaltali í leik í þeim 14 leikjum sem hann spilaði í 1. deild karla. Seinni hluta 2005-2006 tímabilsins spilaði hann 11 leiki með Haukum í IE-deildinni og skoraði 22,8 stig að meðaltali með þeim.
[email protected]
Mynd: Gunnar Freyr Steinsson



