16:00
{mosimage}
Portland Trailblazers hafa verið í NBA deildinni í 38 ár. Þeir hafa einu sinni unnið titil en það var árið 1977 með Bill Walton fremstan í flokki. Frá árinu 1983 til ársins 2003 komust þeir öll árin í úrslitakeppnina og komust í úrslit árið 1990 og 1992 með Clyde Drexler sem burðarstein liðsins. Þó hefur liðið fallið í mikla lægð síðustu ár og verið afar lélegt. Fræg voru árin á milli 2000 og 2004 þegar vitleysingarnir Damon Stoudamire og Rasheed Wallace voru m.a. hjá liðinu en þeir komust oftar en ekki í kast við lögin. Portland var þekkt með flestar tæknivillur og ólátabelgi innan liðsins.
Síðustu 2 ár hefur þó kviknað smá ljós í liðinu og árið 2006 fékk liðið þá LaMarcus Aldridge og Brandon Roy úr nýliðavalinu en Roy var valinn nýliði ársins. Árið 2007 datt liðið í lukkupottinn og fékk að velja fyrst í nýliðavalinu. Greg Oden varð fyrir valinu en hann meiddist á undirbúningstímabilinu og spilaði ekkert í fyrra. Oden gæti verið einn allra besti leikmaður síðustu ára en hann er stór og sterkur og verður vonandi lykilmaður í Portland til komandi ára.
Á síðasta ári byrjuðu Portland tímabilið skelfilega og sigruðu aðeins 5 leiki af fyrstu 17. Þann 3. desember snérust hlutirnir við hjá liðinu eftir sigur á Memphis með einu stigi. Það var upphafið á 13 leikja sigurgöngu í röð í desember mánuði og tapaði liðið aðeins 2 leikjum í mánuðinum. Þetta gerðu þeir án fyrsta valréttsins, Greg Oden.
Nú er Oden hinsvegar kominn í lag og er tilbúinn í tímabilið sem hefst eftir nokkra daga. Með Greg Oden, Brandon Roy og LaMarcus Aldrige fremsta í flokki verður athyglisvert að sjá hvort að Portland komast í úrslitakeppnina í fyrsta skipti síðan 2003. Þeir glíma hinsvegar við mjög sterka vesturdeild og verður því erfiðara fyrir liðið að komast í úrslitakeppnina fyrir vikið. Ef Oden nær sér á strik þá eru miklar líkur á að það takist en hann hefur aðeins verið að spila um 20 mínútur í leik á undirbúningstímabilinu. Allt stefnir þó í að hann fái um 30 mínútur í leik og hnéð virðist ekkert vera að angra hann. Það verður forvitnilegt að sjá hvað gerist hjá Portland Trailblazers í ár.
Arnar Freyr Magnússon
Mynd: www.gregoden.com



