12:27
{mosimage}
(Pierce setti 27 stig fyrir Boston í nótt)
Meistarar Boston Celtics og LA Lakers unnu bæði sigur í fyrstu leikjum sínum í NBA-deildinni sem hófst að nýju í nótt. Celtics drógu 17. meistarafánann upp í rjáfur og Paul Pierce tók tárvotur við bikarnum úr hendi goðsagnarinnar John Havlicek.
Boston hóf titilvörnina með sigri á LeBron James og félögum í Cleveland, 85-90. Leikurinn var jafn allt frá upphafi og leiddu Cavaliers í hálfleik, 43-50. Þegar leið að lokum leiksins leiddu Celtics naumlega en Le Bron James misnotaði sniðskot og tvö vítaskot á síðustu mínútunni og náðu heimamenn því að halda út og tryggja sigurinn.
Pierce var með 27 sig fyrir Boston, Rajon Rondo 14, Leon Powe 13 og Kevin Garnett átti rólegan dag með 11 stig.
Á vesturströndinni unnu Lakers öruggan sigur á Portland, 96-76 þar sem Greg Oden lék sinn fyrsta leik sem atvinnumaður. Það var skammvinn reynsla því hann meiddist á fæti snemma leiks áður en hann komst á blað. Lakers voru annars sannfærandi allt frá byrjun og unnu verðskuldað.
Kobe Bryant var stigahæstur Lakers með 23 stig og 11 fráköst að auki, Pau Gasol var með 15 stig og Trevor Ariza var með 11. Hjá Portland var Travis Outlaw mwð 18 stig, Rudy Fernandez með 16 og Brian Roy með 14.
Að síðustu unnu Chicago Bulls sigur á Milwaukee Bucks, 95-108. Michael Redd var stigahæstur Bucks með 30 stig og nýr leikmaður þeirra, Richard Jefferson var með 15. Hjá Bulls var Luol Deng m.a. með 21 stig, Ben Gordon 18 og nýliðinn Derrick Rose var með 11 stig og 9 stoðsendingar í sínum fyrsta leik eftir að hafa verið valinn með fyrsta valrétt í nýliðavali ársins.
Deildin heldur áfram í kvöld með fjölmörgum leikjum.
ÞJ



