spot_img
HomeFréttirGreg Oden: Brotlending í fyrsta leik

Greg Oden: Brotlending í fyrsta leik

18:58

Það er ekki hægt að segja að NBA ferill Gregs Oden, vonarstjörnu Portland Trailblazers, hafi hafist með flugeldasýningu. Í fyrsta keppnisleik sínum, eftir að hafa verið valinn fyrstur í nýliðavalinu í fyrra, mátti hann sætta sig við að vera tekinn út af í hálfleik með snúinn ökkla og án stiga.
Ekki er enn ljóst hversu alvarleg meiðsli hans eru en þau komu þannig til að hann lenti óheppilega á fæti Dereks Fisher hjá Lakers og þó hann hafi þrjóskast við fram að hálfleik, var ljóst að hann gekk ekki heill til skógar.

Oden sagði í samtali við blaðamenn eftir leikinn, þar sem hann studdist við hækjur á leiðinni út úr Staples Center, að hann vissi ekki hvenær hann yrði leikhæfur á ný, en hans bíður nú sneiðmyndataka á næstunni áður en skorið verður úr um alvarleika málsins.

Þetta er einungis síðasta tifellið í röð meiðsla sem þessi tröllvaxni ungi maður hefur glímt við á ferlinum, en hann missti framan af fyrsta og eina tímabili sínu í háskóla vegna aðgerðar á úlnlið, missti af öllu nýliðaárinu vegna hnémeiðsla og sneri sig lítillega á ökkla á undirbúningstímabilinu á dögunum.

Í pistli körfuboltaspekingsins Johnny Ludden á Yahoo! Sports í dag fjallar hann um málið og rekur þar efasemdir sem margir höfðu fyrir nýliðavalið þar sem úttekt lækna á Oden vakti fjölmargar spurningar um líkamlegt ástand hans og getu til að þola langt og strangt tímabil í NBA.

„Hann er búinn að leggja gífurlega mikið á sig til að koma til baka,“ sagði Nate McMillan, þjálfari Portland, eftir leikinn. „Við gerðum allt sem við gátum til að koma honum inn í þetta tímabil og hér erum við staddir. Snúinn ökkli í fyrsta leik. Við erum bara að vona að þetta sé ekkert alvarlegt og hann verði kominn aftur innan nokkurra daga.“

Vonandi blessast allt hjá þessum geðþekka og hæfileikaríka leikmanni, en það er ekki laust við að hugurinn reiki að nokkrum vel þekktum dæmum um miklar vonir og væntingar til leikmanna sem hafa svo orðið að engu vegna þrálátra meiðsla. Er það skemmst að minnast Sam „valinn-á-undan-Jordan“ Bowie sem aldrei náði að sýna sitt rétta andlit, Pervis Ellison var annar sem aldrei náði að sýna hvað í honum bjó og svo mætti lengi telja.

Sá frægasti úr röðum þeirra sem hafa verið plagaðir af meiðslum er þó án efa Bill Walton sem gekk aldrei á ferli sínum heill til skógar en náði þó einmitt að stýra Portland Trailblazers til NBA-titilsins árið 1977. Hann mátti svo hætta keppni í 3 ár áður en hann kom aftur og kláraði ferilinn með sæmd og var m.a. einn af lykilmönnum meistaraliðs Boston Celtics árið 1986.

ÞJ

Heimild: Yahoo! Sports

Fréttir
- Auglýsing -