13:55
{mosimage}
Miðvikudagskvöldið 29. okt. tóku FSu á móti Hrunamönnum í fyrsta leik bikarkeppni KKÍ, leikurinn fór fram í Iðu á Selfossi. Dómarar leiksins voru Hákon Hjartarson og Gísli Páll Pálsson.
Leikurinn var aldrei í hættu fyrir heimamenn en staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-2. Gestirnir tóku aðeins við sér í sókninni og náðu að bæta tíu stigum við sig áður en flautað var í hálfleik. FSu héldu áfram sama róli og í fyrsta leikhluta og bættu 24 stigum við sig í öðrum leikhluta og staðan 47-12 í hléinu.
Hrunamenn komu sterkir til leiks í þriðja leikhluta og þurftu heimamenn að hafa fyrir hlutunum ólíkt fyrstu tveimur fjórðungunum en Hrunamenn unnu þriðja leikhluta með einu stigi, 9-10. FSu byrjuðu seinasta fjórðunginn af fullum krafti og gáfu ekkert eftir. Baráttugleði heimamanna skein úr augum þeirra þar sem þeir tóku hvert sóknarfrákast eftir öðru. Hrunamenn gáfust þó ekki upp þrátt fyrir 10-0 áhlaup FSu í leikhlutanum þar sem þeir skoruðu næstu 19 stig á móti aðeins 4 stigum FSu. Góður lokasprettur Hrunamanna kom ekki í veg fyrir sigur FSu og lokatölur leiksins 70-41.
Atkvæðamestur í liði FSu var Garðar Hannesson með 17 stig en skammt á eftir honum komu Eggert Sigurþór Guðlaugsson með 11 stig og Sæmundur Valdimarsson með 10 stig. Í liði Hrunamanna var Jón Bjarnason lang stigahæstur en hann skoraði 23 stig í leiknum og þar af 12 í fjórða leikhluta en næst á eftir honum kom Sigurður Kristinsson með 6 stig.
Texti og myndir: Björgvin Rúnar Valentínusson
{mosimage}



