spot_img
HomeFréttirStólarnir lögðu Stjörnuna í Síkinu (Umfjöllun)

Stólarnir lögðu Stjörnuna í Síkinu (Umfjöllun)

00:55
{mosimage}

(Svavar Atli Birgisson)

Garðabær sendi í kvöld sínar helstu Stjörnur í víking Norður yfir heiðar til að herja á Tindastólsmenn á Sauðárkróki. Hjá gestgjöfunum byrjuðu að venju fóstbræðurnir Ísak og Svavar ásamt fulltrúum útlendinga, þeim Ben Luber, Darrell Flake og Soren Flæng. Hjá Stjörnunni stigu fyrstir á stokk þeir Jovan Zdravevski, Birkir Guðlaugsson, Justin Shouse, Guðjón Lárusson og Fannar Helgason.

Leikurinn fór rólega af stað, en Tindastólsmenn náðu fljótlega yfirhöndinni og komust í 10 stiga mun, 20-10 eftir átta mínútur. Stjarnan svaraði fyrir sig fyrir lok fyrsta fjórðungs og skoruðu næstu 6 stig. Þar við sat þegar einum fjórða af leiknum var lokið. Staðan 20-16.

Enn söxuðu gestir á muninn í byrjun annars leikhluta, en í stöðunni 24-23 tóku heimamenn fjörkipp og klíndu 9 stigum í röð niður. Munurinn aftur 10 stig og hélst hann nokkuð veginn þannig til hálfleikspásunnar. Ísak setti niður þrist á lokasekúndunum og leiddu heimamenn með níu stigum, 40-31. Eins og sést á hálfleikstölum var sóknarleikurinn kannski ekki í fyrirrúmi, heldur öflugur varnarleikur hjá báðum liðum. Flake var öflugur í fyrri hálfleik með 12 stig og Helgi Rafn kom með kraft í vörn heimamanna þegar þeir rifu sig aftur framúr í öðrum leikhluta. Hjá Stjörnunni var Jovan kominn með 11 stig í hálfleik.

Stólarnir virtust vera með leikinn í sínum höndum í seinni hálfleik, því munurinn hélst í kringum tíu stigin allan þriðja leikhluta. Tindastóll náði á tímabili 15 stiga mun, en Stjarnan minnkaði það jafnharðan niður í tuginn. Shouse, Jovan og Fannar voru atkvæðamestir á þessum kafla fyrir Garðbæinga, en Svavar og Flake fyrir heimamenn. Staðan að loknum þriðja leikhluta, 66-55.

Stólarnir mættu hálfsofandi til síðasta fjórðungs á meðan Stjarnan reyndi að beita hápressu. Á fyrstu fimm mínútunum skoruðu heimamenn aðeins fjögur stig á meðan gestirnir settu niður heil 13. Staðan orðin 70-68 og aftur kominn spenna í leikinn. Kiddi tók þá leikhlé til að vekja sína menn. Það tókst, því Ben tók við sér eftir slakan leik og fór loksins að hitta og skoraði á lokakaflanum níu af 17 stigum sínum. Shouse hélt gestunum að mestu á floti ásamt Fannari Helgasyni. Í stöðunni 76-73 hristu Stólarnir loks Stjörnumenn af sér, skoruðu þrjú stig í röð og komu muninum í sex stig. Þessi sex stig skildu liðin að lokum, þó gaf Shouse gestunum smá von með þristi á lokamínútunni, en heimamenn klikkuðu ekki á vítalínunni og unnu eins og áður segir með sex stigum, 84-78.

Bestir Tindastólsmanna voru Flake og Svavar. Ben var slakur framanaf, en kom sterkur inn á lokakaflanum. Helgi Rafn sýndi góða baráttu að vanda og var með 8 stig. Ísak og Soren stóðu fyrir sínu, þó þeir hafi oft verið meira áberandi. Hreinn Birgisson átti síðan fína innkomu af bekknum og skoraði 7 stig. Flake var síðan með 15 fráköst.

Lið Stjörnunnar báru þrír menn uppi, þeir Jovan Zdravevski, Justin Shouse og Fannar Helgason. Stólarnir réðu lítið við Shouse í síðari hálfleik og Fannar var mjög sterkur undir körfunni í leiknum, skoraði 16 stig og tók 13 fráköst.

Stigaskor Tindastóls: Flake 26, Luber 17, Svavar 14, Helgi Rafn 8, Hreinn7, Ísak og Flæng 6 stig hvor.

Stjarnan: Shouse 26. Zdravevski 22, Fannar 16, Guðjón og Birkir 4 stig hvor, Hjörleifur 3, Hilmar 2 og Ólafur 1.

Dómarar leiksins voru þeir Simmi og Jói, Sigmundur Már Herbertsson og Jóhann Guðmundsson. Þeir áttu bara ágætis kvöld og með betri dómgæslum sem sést hafa í Síkinu.

Nokkrar tölur úr leiknum: 8-2, 13-6, 18-10, 20-16, – 24-23, 33-23, 35-29, 40-31 – 47-35, 53-42, 64-50, 66-55, – 70-62, 70-68, 76-72, 81-78, 84-78.

 

Eftir leikinn er Tindastóll með 6 stig, en Stjarnan er enn með 2 stig.

Eftir leik var Kristinn Friðriks spurður álits á leiknum:

Hvernig fannst þér leikurinn í kvöld?  
"Mér fannst við betra liðið og við uppskárum sigur."

En þetta var full erfitt á köflum?
"Við spilum mjög illa í seinni hálfeik og fáum á okkur 47 stig. Það er ekki gott. Ekki vænlegt til árangurs."

Sóknarleikurinn var soldið stirður hjá Tindastóli?
"Þeir spiluðu fína vörn í seinni hálfleik og við vorum ekki að bregðast nógu vel við, vorum að taka léleg skot, en sem betur fer unnum við leikinn."

Hvernig líst þér á framhaldið?
"Alveg eins og fyrir þennan leik, líst vel á áframhaldið."

Nú er Njarðvík í næsta leik, Valur og félagar?
"Það verður vissulega erfiður leikur, eins og allir leikirnir í vetur, það er engin leikur gefins."

Nú er Ben á förum, er verið að fá annan mann í staðinn?
"Við erum að reyna að fá annan leikmann og vonandi hefst það á næstunni og hann komi sem allra fyrst."

Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xMjU=

Texti: Jóhann Sigmarsson
Mynd: Úr safni

Fréttir
- Auglýsing -