15:22
{mosimage}
(Gunnar Einarsson er afskaplega hrifinn af íslensku deildinni eins og hún er í dag)
Gunnar Einarsson á von á skemmtilegum leik í Toyotahöllinni í kvöld þegar Íslandsmeistarar Keflavíkur fá nýliða Breiðabliks í heimsókn kl. 19:15. Gunnar átti magnaða leiktíð í fyrra og var valinn besti maður úrslitakeppninnar. Hann segir í samtali við Karfan.is að hann hafi hvergi slegið slöku við og sést það vel á tölunum hjá Gunnari sem er með 19,7 stig að meðaltali í leik eftir fyrstu þrjá deildarleikina hjá Íslandsmeisturunum. Gunnar vill endilega fara að sjá fleiri áhorfendur á leikjunum og segir körfuboltann ekki bara skemmtilegan í úrslitakeppninni!
,,Ég hlakka til að fá Breiðablik í heimsókn. Maður þekkir vel til liðsins og þarna er Halldór Örn Halldórsson fyrrum leikmaður Keflavíkur, það verður gaman að fá hann í Toyotahöllina en hann hefur ekki sést hérna síðan hann fór í Blika,“ sagði Gunnar og bætti við að Keflavík yrði að halda í við toppliðin.
,,Við veðrum að passa það að missa ekki af toppliðunum og megum ekki misstíga okkur á leiðinni. Við förum í alla leiki til að vinna og nú er strembin vika framundan þar sem við eigum þrjá leiki á sex dögum,“ sagði Gunnar en er hann í sama formi og á síðustu leiktíð?
,,Ég tók upp þráðinn í sumar þar sem ég skildi við hann á síðustu leiktíð og ætla mér að halda því áfram. Síðustu leiktíð lauk vel en í ár þarf ég að axla meiri ábyrgð en áður þar sem ég er í eldri kantinum í þessu liði,“ sagði Gunnar sem hefur séð tímana tvenna í íslenska boltanum og líkar vel umhverfið á deildinni í dag.
,,Ég er búinn að prófa allar útgáfur af þessu með marga erlenda leikmenn eða bara einn. Þetta ástand eins og það er núna er óneitanlega skemmtilegra. Það eru flottir strákar í hópnum okkar og þó svo að ég hafi ekkert á móti erlendum leikmönnum þá er andrúmsloftið bara allt annað án þeirra. Það er bara eins og maður sé í drengjaflokki,“ sagði Gunnar kátur í bragði en hvernig líst honum á þessar fyrstu umferðir í deildinni?
,,Karfan hefur verið að fá fína umfjöllun undanfarið, bæði þegar atvinnumennirnir okkar snéru heim og svo þegar erlendu leikmennirnir fóru frá Íslandi í stórum stíl. Ég vona bara að fólk fari að skella sér á völlinn því körfuboltinn er líka skemmtilegur í upphafi og á miðju tímabili,“ sagði Gunnar en hvernig leggst leikurinn gegn Blikum í kvöld í hann?
,,Ég á von á hörkuskemmtilegum leik, Blikar spila svipað og við og vilja spila hratt,“ sagði Gunnar og játti því að þar myndu nýliðarnir mæta 2-2-1 pressunni frægu. ,,Við spilum bara okkar leik og pressan er hluti af því sem við gerum. Spilum hratt og pressum!“



