8:56
Kevin Garnett hjá Boston Celtics sló NBA met í nótt þar sem hann var yngsti maðurinn til að leika 1000 leiki á ferlinum, aðeins 32 ára og 165 dögum betur. Garnett sló þar með met sem Shawn Kemp setti árið 2002, en hann var rúmlega 33ja ára þegar hann náði þessum áfanga.
Garnett toppaði sinn glæsilega feril með því að vinna sinn fyrsta titil í vor, og Celtics eru til alls líklegir eftir annan sigur sinn í jafnmörgum leikjum í nótt. Garnett átti góðan leik eftir frekar misjafnan dag í opnunarleiknum .
„Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að leika alla leiki og tek mér aldrei frí,“ sagði Garnett eftir leikinn. „Ég hef náð mörgum markmiðum sem ég hef sett mér og nýt þess að leika með þessu liði, ég ætla að njóta ársins og njóta hvers dags sem ég get leikið af fullum krafti.“
Garnett var meðal brautryðjenda á sínum tíma þegar hann kom inn í NBA deildina , beint úr miðskóla. Það hafði enginn gert síðan Darryl Dawkins , „Súkkulaðiþruman“, kom fram á sjónarsviðið á 8. áratugnum.
Síðan þá hafa ógrynni af leikmönnum tekið þetta stökk og er líklegt að tveir þeirra, Kobe Bryant og LeBron James, muni slá 1000 leikja metið áður en yfir lýkur ef allt gengur að óskum.



