spot_img
HomeFréttirÓfarir Skallagríms halda áfram (umfjöllun)

Ófarir Skallagríms halda áfram (umfjöllun)

22:15
{mosimage}
(Kjartan Kjartansson skoraði 11 stig fyrir Stjörnuna í kvöld)

Stjarnan tók á móti Skallagrím í IE deildinni í Ásgarði í Garðabæ í kvöld.  Leikurinn var aldrei spennandi og strax frá upphafi höfðu heimamenn öruggt forskot.  Munurinn var kominn upp í 30 stig í hálfleik og eftir það leystist leikurinn hálfpartinn upp í eitthvað annað en körfubolta.  Stjarnan hafði á endanum 37 stiga sigur, 82-45.  Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Fannar Helgason með 15 stig og 7 fráköst en næstir voru Kjartan Kjartansson með 11 stig og Guðjón Lárusson með 10 stig.   Hjá Skallagrím var Þorsteinn Gunnlaugsson með 13 stig og 6 fráköst en næstir voru Sveinn Davíðsson með 12 stig og Pálmi Þór Sævarsson með 8 stig. 

Heimamenn náðu strax nokkuð afgerandi forskoti en þeir fundi auðveldar leiðir að körfu Skallagríms trekk í trekk á meðan gestirnir virtust vera í bullandi vandræðum með að koma skipulagi á sinn sóknarleik.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan orðin 9-4 Stjörnunni í vil.  Stjarnan leitaði mikið undir körfuna í upphafi leiksins en þegar leið á leikhlutan fóru þeir að skjóta fyrir utan.  Þegar fjórar mínútur voru eftir tók Skallagrímur leikhlé en þá var munurinn kominn upp í 13 stig, 17-4.      Leikhléið virtist þó ekki breyta miklu fyrir gestina því þeir voru áfram í bullandi vandræðum með sóknarleikinn og meira að segja reynsluboltinn Pálmi Sævarsson virtist vera orðinn ragur við að keyra að körfunni.  Stjörnumenn bættu því vel í forskotið þegar leið á leikhlutann og höfðu á endanum 18 stiga forskot þegar flautað var til loka leikhlutans, 29-11.  Þorsteinn Gunnlaugsson kom hins vegar sterkur inn undir lok leikhlutans fyrir gestina en hann skoraði 9 af 11 stigum þeirra í fyrsta leikhluta.  

Það gekk ögn betur hjá gestunum að koma boltanum ofaní körfuna í upphafi annars leikhluta en varnarhlutverkið virtist gleymast.  Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn upp í 25 stig, 41-16.  Stjarnan setti hvert þriggja stiga skotið ofaní af fætur öðru og munur jókst fljótt.  Það róaðist þó aðeins yfir sóknarleik Stjörnunnar þegar leið á leikhlutan en þó minnkaði munurinn aldrei.  Stjarnan hafði mjög svo örugga forustu þegar flautað var til hálfleiks, 51-22.  

{mosimage}

Stigaskorið dreifðist vel hjá Stjörnunni en í hálfleik var Kjartan A. Kjartansson stigahæstur með 11 stig og þar af þrjár þriggja stiga körfur.  Næstir og jafnir að stigum voru þeir Fannar Helgason og Justin Shouse með 9 stig.   Hjá Skallagrím var Þorsteinn Gunnlaugsson eini maðurinn að spila á fullri getu en þó hafði hann aðeins bætt við þremur stigum í öðrum leikhluta og hafði þess vegna skorað 12 stig í hálfleik.  Næstir voru Trausti Eiríksson með 5 stig og Pálmi Sævarsson með 4 stig.  

Lítið gekk hjá báðum liðum að koma boltanum ofaní í upphafi þriðja leikhluta en liðin skiptust þó á að skora.  Þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður varð útlitið dökk þó nóg væri fyrir hjá Skallagrím þegar Þorsteinn Gunnlaugsson fékk sína fjórðu villu og fékk að hvíla sig það sem eftir lifði þeim leikhluta.  Munurinn hélst í kringum þrjátíu stig allan leikhlutan og þegar honum lauk var staðan 65-35.  Stjarnan hafði því aðeins skorað 14 stig í leikhlutanum gegn 13 stigum Skallagríms.  

Leikurinn einkenndist af hálfgerðri upplausn í fjórða leikhluta en liðin hlupu fram og aftur og lítið var um skipulagðan körfubolta.  Ungir og óreyndir leikmenn fengu að leggja sitt af mörkum og kom ungur leikstjórnandi Stjörnunnar Hafþór Örn Þórrisson nokkuð sterkur inn. Það varð þó lítil breyting á stigamun á liðunum þó svo að Stjarnan hafi hægt og rólega bætt örlítið í.  Þegar leiknum lauk var munurinn kominn upp í 37 stig,  82-45.  Lið Skallagríms átti í raun aldrei möguleika í leiknum í kvöld og segja má að þeir hafi barist eins og hauslaus her.  Leikstjórnandi Skallagríms virtist ekki ráða við hlutverk sitt og það hefur sýnt sig að spilandi þjálfari hefur ekki reynst vel í efstu deild.   

Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Myndir : Arnar Freyr Magnússon  [email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -