spot_img
HomeFréttirPistons: Er Lebron takmarkið?

Pistons: Er Lebron takmarkið?

14:30

Risaskiptin í gær þar sem Allen Iverson frá Denver og Chauncey Billups frá Detroit höfðu vistaskipti, gætu reynst enn sögulegri ef sterkur orðrómur reynist réttur.

Adrian Wojnarowski, einn af pistlahöfundum Yahoo! Sports, veltir í dag upp þeirri hugmynd að Joe Dumars, framkvæmdastjóri Detroit, sé með þessum skiptum að búa í haginn fyrir að fá ofurstjörnuna Lebron James til liðs við sig þegar samningur hans við Cleveland rennur út árið 2010.
Detroit mun hafa gífurlegt svigrúm á leikmannamarkaðinum á næsta ári þegar samningar þeirra Iversons og Raheed Wallace renna sitt skeið. 22 milljónir dala verða þá til reiðu, en engu að síður verður liðið vel mannað. Herma nýjustu fregnir m.a.s. að Richard Hamilton sé nú búinn að framlengja við Detroit til ársins 2012.

Þess má geta að feitasti bitinn á markaðnum á næsta ári verður Carlos Boozer hjá Utah, en líklegt er að Detroit muni bíða átekta í eitt ár eftir að fá stóra vinninginn.

Fram að því munu Detroit eiga jafna möguleika á titli þar sem Iverson gæti séð þetta sem síðasta tækifærið til að fá meistarahringinn sem hann hefur elst við allan sinn feril.

Í þó nokkurn tíma hafa samningamál Lebron James verið í brennidepli og mörg lið hafa leynt og ljóst reynt að búa sér til svigrúm til að bjóða í hann.

M.a. hefur aðaleigandi New Jersey Nets sótt hart fram í að fá liðið flutt til Brooklyn og meðeigandi hans, rappstjarnan Jay-Z, er einn af bestu vinum James.

Þá er talað um að öskustó NBA-deilarinnar, New York Knicks, hafi verið að gera sér vonir um að lokka stjörnuna til sín.

Wojnarowski segir þó að Dumars sé með öll tromp á hendi og vitnar í ónafngreindan framkvæmdastjóra í NBA að nú sé allt til reiðu í Detroit. Fyrir utan laun, mannskap og vel þokkaða yfirstjórn er Dumars nefninlega líka með góð sambönd við helstu ráðgjafa Lebrons, þá William Wesley, sem vinnur einnig fyrir Iverson, og Leon Rose, sem er einnig umboðsmaður Hamiltons.

Þegar sumarið 2010 rennur upp og Lebron lítur á valmöguleikana er erfitt að sjá að einhver geti boðið betur en þetta gamla stórveldi, en það verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

ÞJ

Heimild: Yahoo! Sports

Fréttir
- Auglýsing -