14:13
{mosimage}
(Þorsteinn í leik með Skallagrím gegn Snæfell á dögunum)
Borgnesingar hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku í Iceland Express deild karla en Þorsteinn Gunnlaugsson hefur ákveðið að yfirgefa Fjósið. Þetta staðfesti Þorsteinn í samtali við Karfan.is nú fyrir stundu. Þorsteinn hefur leikið fimm fyrstu deildarleikina með Skallagrím og gert þar 17,2 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 5,4 fráköst í leik.
,,Ég er ekki á leiðinni í annað lið en ég fann að ég hafði ekki gaman af því að spila lengur. Ég var að eyða rosalega miklum tíma í þetta og sá því ekki ástæðu til að halda áfram víst þetta var ekki gaman. Mér hefur alltaf fundist gaman í körfubolta en ég fann bara að nú þyrfti ég að fara að gera eitthvað annað,“ sagði Þorsteinn og ítrekar að hann sé ekki á leið í annað lið núna.
Aðspurður hvort staða liðsins í deildinni hefði einhver áhrif á ákvörðunina svaraði Þorsteinn að sú staðreynd ætti einhvern hlut að máli. ,,Væntanlega á staða liðsins einhvern hlut í þessu en þegar ég kom til Skallagríms var ég að leita að góðum þjálfara og kennara og með brotthvarfi Ken Webb var sú forsenda brostin en ég ákvað samt að láta reyna á þetta. Eins og ég segi þá gekk það ekki upp og ef maður hefur ekki gaman af þessu þá er ekki ástæða til þess að vera að halda áfram.“
Þorsteinn hefur rætt við bæði þjálfara og formann KKD Skallagríms og fundað með liðsmönnum Skallagríms þar sem hann segist hafa komið sínum ástæðum fyrir brotthvarfinu á framfæri. ,,Ég hef ekki trú á því að Borgnesingar hafi horn í minni síðu fyrir vikið og ég var eins hreinskilinn við alla og ég gat verið. Ég útskýrði mitt mál fyrir öllum svo það færu ekki neinir að fylla sjálfir í einhverjar eyður og minn skilningur er sá að fólk hafi skilning á mínum ástæðum,“ sagði Þorsteinn og segist skilja á góðum nótum við Borgnesing.
Hvert áfallið hefur dunið yfir Borgnesinga á fætur öðru. Áskell Jónsson meiddist á undirbúningstímabilinu og Hafþór Ingi Gunnarsson er væntanlega ekki leikhæfur fyrr en eftir áramót. Þá samdi Pétur Már Sigurðsson við Laugdæli í sumar, Axel Kárason hélt erlends í nám og Ken Webb ákvað að halda ekki áfram í Borgarnesi og erlendir leikmenn voru sendir heim. Þorsteinn segir þó að enn sé allt opið fyrir Borgnesinga.
,,Það vantar mikið í öll lið þegar það er vöntun á góðum leikstjórnanda og það vitum við sem erum í liðsíþróttum. Það er enn einhverjar vikur í Áskel og Hafþór ætlar sér að vera með eftir áramót,“ sagði Þorsteinn en bætti við að hann sjálfur ætti pottþétt eftir að spila körfubolta að nýju.
,,Ég veit að hungrið kemur aftur en það dvínaði mikið í öllu þessu basli. Það er allt opið hjá mér að fara aftur í Skallagrím en eins og staðan er núna langar mig ekki að spila og þess vegna hætti ég. Það er bara spurning hvenær ég byrja aftur og þá með hverjum,“ sagði Þorsteinn.
Pálmi Sævarsson var í snörpu spjalli á Vísir.is í dag þar sem hann greindi frá því að nú kæmi bæði til greina hjá Skallagrím að reyna að fá íslenska sem og erlenda leikmenn til liðs við félagið.
„Það er nokkuð ljóst að við þurfum hjálp og það er verið að reyna að vinna í þessu á fullu. Við eigum eftir að finna út hvað er besta lausnin, peningarnir flæða ekki inn hérna en fólk í bæjarfélaginu er sjálft búið að leggja inn pening til liðsins," segir Pálmi í samtali við www.visir.is í dag.
Þorsteinn verður því ekki með Borgnesingum á föstudag þegar Njarðvíkingar koma í heimsókn.
Mynd: Sigga Leifs



