spot_img
HomeFréttirKeflavík sigrar í framlengingu (umfjöllun)

Keflavík sigrar í framlengingu (umfjöllun)

Keflvíkingar mörðu sigur í framlengingu gegn FSU nú í kvöld með 99 stigum gegn 90 í nokkuð skemmtilegum leik þar sem sigurinn hefði hæglega getið dottið fyrir gestina.  En það voru heimamenn sem voru sterkari í framlenginunni og skiluðu 2 stigum í hús.

Lið FSU hóf leikinn gríðarlega vel en þeir skörtuðu spá nýjum erlendum leikmanni að nafni Thomas Viglianco sem lofar bara þó nokkuð góðu fyrir lið þeirra en hann skilaði 21 stigi  og 15 fráköstum fyrir þá í kvöld. En sem fyrr segir voru það gestirnir sem hófu leikinn betur og voru að hitta gríðarlega vel í fyrsta fjórðung.  22-31 var staðan eftir fyrsta fjórðung og heimamenn vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

 

Gestirnir náðu mest 9 stiga forskoti í fyrri hálfleik en þá töldu Keflvíkingar vera nóg komið og hertu vörn sína til muna. Með mikilli baráttu náðu þeir að minnka muninn niður í 3 stig áður en flautan gall til hálfleiks.

 

Það var svo um miðbik þriðja fjórðungs sem að heimamenn komust loksins yfir í stöðunni 52-51. Á þessum tíma einkenndi leikinn mikil barátta hjá báðum liðum og greinilegt að hvorugt liðið myndi sætta sig við tap.

 

Þegar um 2 mínútur voru eftir var staðan 82-74 heimamenn í vil og lítið sem bar þess merki að gestirnir ættu nokkurn séns á sigri. En lið FSU voru alls ekki á þeim buxunum að gefast upp og með 4 þristum á loka mínútum leiksins náðu þeir að knýja framlengingu í leiknum.

 

Í framlengingunni voru það hinsvegar Íslandsmeistararnir sem sýndu það og sönnuðu að reynslan vegur þungt á ögurstundum.  Gunnar Einarsson fór fyrir sínum mönnum, setti niður 10 stig í framlengingunni og leiddi sína menn að lokum til sigurs í leiknum.

 

Hörður Axel var stigahæstur heimamanna með 24 stig og átti eina svakalega troðslu yfir nýja mann þeirra FSU manna. Næstur honum var “Ísafjarðar-tröllið”  Sigurður Þorsteinsson sem var með 21 stig og má segja að kappinn vaxi með hverjum leiknum.  Hjá gestunum var það þeirra nýji maður Thomas Viglianco sem var þeirra besti maður í kvöld með 21 stig og 15 fráköst og Tyler Dunaway var næstur í stigaskorun  með 20 stig.  En mesta athygli vakti frammistaða Árna Ragnarssonar í kvöld en þar er á ferðinni skemmtilegur leikmaður sem á eftir að vekja athygli á næstu árum í körfunni hér heima og jafnvel erlendis ef rétt er haldið á spilunum.

Fréttir
- Auglýsing -