LA Lakers eru eina taplausa liðið í NBA það sem af er vetri eftir að hafa unnið New Orleans Hornets í nótt en á meðan tapaði Atlanta Hawks fyrir meisturum Boston Celtics. Þá sneri Greg Oden aftur í lið Portland eftir meiðsli í sigri á Miami.
Úrslit næturinnar fylgja hér að neðan:
Hver annar en Kobe Bryant tryggði sínum mönnum í Lakers sigur á hinu efnilega liði Hornets. Leikar fóru 93-86, en eftir að hafa elt allan leikinn komust Hornets aftur inn og voru til alls líklegir áður en Bryant sallaði erfiðu 3ja stiga skoti yfir James Posey þegar lítið var eftir og breytti stöðunni í 86-80.
Lakers hafa því unnið alla 7 leiki sína í vetur, en þetta var líka sögulegt kvöld fyrir Chris Paul sem var með a.m.k. 20 stig og 10 stoðsendingar sjöunda leikinn í röð. Það er NBA-met en það hirti hann af ekki minni manni en Oscar Robertson.
Meistarabragur var á hinum grænu í Boston þegar þeir urðu fyrstir til að leggja Hawks að velli í vetur. Leikur liðanna var spennandi allt fram á síðustu sekúndu þegar Paul Pierce kom sínum m önnum yfir 103-102 þegar 0,5 sekúndur voru eftir af leiknum. Pierce var með 34 stig, Kevin Garnett 25 og 12 fráköst og Ray Allen gerði 17.
Greg Oden gerði sín fyrstu stig í NBA í nótt, rúmlega 500 dögum eftir að hafa verið valinn fyrstur í nýliðavalinu og 5 milljónum dala. Stigin, þrjú samtals, komu í góðum sigri Portland á Miami, en maður leiksins var Rudy Fernandez, bakvörður Portland og spænska landsliðsins, sem gerði 25 stig, þ.á.m. gerði hann út um leikinn með fallegu stökkskoti þegar tæp mínúta var eftir af leiknum. Dwayne Wade var enn við sama heygarðshornið og gerði 36 stig en það dugði ekki til.
Hér eru úrslitin:
Philadelphia 106
Toronto 96
Indiana 98
New Jersey 87
Atlanta 102
Boston 103
San Antonio 78
Milwaukee 82
Utah 87
Washington 95
Orlando 109
Oklahoma City 92
Portland 104
Miami 96
New York 132
Memphis 103
LA Lakers 93
New Orleans 86
Houston 94
Phoenix 82
Sacramento 103
LA Clippers 98
ÞJ



