spot_img
HomeFréttirKR fékk verðuga mótspyrnu í Ásgarði (Umfjöllun)

KR fékk verðuga mótspyrnu í Ásgarði (Umfjöllun)

22:08
{mosimage}

(Jakob veitti KR gæfumuninn í kvöld)

Jakob Örn Sigurðarson kom togaranum KR í öruggt skjól skömmu áður en óveðrið gat riðið yfir Vesturbæjarveldið í Ásgarði. Jakob setti stóran þrist niður á lokasprettinum gegn Stjörnunni og breytti stöðunni í 81-88 þegar 55 sekúndur lifðu leiks. Lokatölur urðu svo 81-90 fyrir gestina sem máttu prísa sig sæla með sigurinn eftir nokkuð andvaraleysi í fyrri hálfleik. Stjörnumenn veittu meistaraefnum KR verðuga mótspyrnu í kvöld en sem fyrr á þessari leiktíð urðu Stjörnumenn bensínlitlir á lokasprettinum og urðu að lúta í lægra haldi.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og komust í 7-0 en gestirnir voru fljótir að jafna sig og komust yfir 10-14. Guðjón Hrafn Lárusson fann sig vel fyrir Stjörnuna í upphafi leiks sem og Kjartan Atli Kjartansson sem kom inn á völlinn þegar fyrsti leikhluti var u.þ.b. hálfnaður. Jafnt var á öllum tölum uns Ólafur J. Sigurðsson kom Stjörnunni í 25-21 með þriggja stiga körfu. Gestirnir tóku þá leikhlé og pressuðu stíft á heimamenn og náðu fyrir vikið að jafna og staðan 25-25 eftir fyrsta leikhluta sem var ansi fjörugur.

Topplið KR mætti til leiks vitandi að Fannar Helgason yrði ekki í leikmannahópi Stjörunnar og þeim hefur örugglega reynst það erfitt að gíra sig upp í leikinn enda fjarri sínu besta. Það var sem Vesturbæingar litu á sigur kvöldsins sem skyldusigur og fór það óneitanlega fyrir brjóstið á þeim sú mótspyrna sem Stjarnan veitti.

Kjartan Atli kom Stjörnunni í 28-25 með góðum þrist og innan skamms voru heimamenn komnir með 11 stiga forskot, 42-31. Jovan Zdravevski átti góða spretti hjá Stjörnunni sem leysti vel úr pressu KR og þá fór Hilmar Geirsson á kostum fyrir Stjörnuna og lék vafalítið sinn besta leik í úrvalsdeild en hann setti niður 11 stig í kvöld og tók 5 fráköst.

{mosimage}
(Það voru engin vettlingatök í Ásgarði í kvöld)

Í öðrum leikhluta hóf Stjarnan að leika svæðisvörn sem KR hefur leyst mjög vel í síðustu leikjum. Svæðisvörn Stjörnunnar gekk vel því gestirnir voru ekki að hitta vel úr skotum sínum. Þegar um tvær mínútur voru eftir af öðrum leikhluta rönkuðu KR-ingar við sér og þá fengu heimamenn að kenna á sínu eigin tevatni.

Pressa KR hrökk í gírinn og náðu gestirnir 11-0 áhlaupi og staðan því 49-44 fyrir heimamenn í hálfleik. Jakob Örn Sigurðarson kveikti í KR undir lok fyrri hálfleiks með tveimur stolnum boltum í röð en það var Helgi Már Magnússon sem bombaði niður þriggja stiga körfu og sendi röndótta dýrvitlausa inn í búningsklefa.

 

Jafnt var á öllum tölum í síðari hálfleik og hver karfa vó þungt. Bæði lið komust upp með fáránlegan varnarleik á köflum og óhætt að segja að sum hver varnartilþrifin hafi jaðrað við líkamsárásir og áhorfendur beggja megin í stúkunni létu vel í sér heyra.

Kjartan Atli Kjartansson kom Stjörnunni í 60-56 með þriggja stiga körfu en heimamenn voru í vandræðum með pressu KR sem oft skóf veglega af skotklukku heimamanna. Darri Hilmarsson jafnaði metin í 68-68 þegar 25 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta og meira var ekki skorað og því jafnt fyrir lokasprettinn.

Justin Shouse breytti stöðunni í 73-70 með þriggja stiga körfu en skömmu síðar urðu Stjörnumenn fyrir áfalli þegar Guðjón Lárusson fékk sína fimmtu villu fyrir ruðning og varð frá að víkja. Guðjón var KR erfiður í kvöld með 10 stig og 2 fráköst. Stuttu síðar komst KR yfir í fyrsta sinn í langan tíma í leiknum, 73-74, en heimamenn gáfu hvergi eftir.

{mosimage}
(Guðjón Lárusson sýndi fín tilþrif en fékk 5 villur snemma í fjórða leikhluta)

Liðin skiptust á því að skora síðustu mínúturnar og létu þau hverja einustu villu dómaranna fara í sínar fínustu taugar og spennustigið var orðið himinhátt undir lokin. Jovan minnkaði muninn fyrir Stjörnuna í 78-79 með þriggja stiga körfu þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka en þá var eins og KR áttaði sig á því að það væri möguleiki á því að þeir myndu tapa!

KR maskínan hrökk í gang á lokasprettinum og gestirnir fóru langt á því að frákasta mun betur en heimamenn. Þegar rúm mínúta var til leiksloka héldu KR í sókn og staðan 81-85 fyrir KR. Jakob Örn Sigurðarson fékk boltann og vippaði sér upp í þrist sem vildi niður og staðan því 88-81 þegar 55 sekúndur voru til leiksloka og sigur KR í höfn. Sterkir Vesturbæingar létu þessa stöðu ekki af hendi og sigldu síðustu mínútuna í átt að öruggum 81-90 sigri.

Óhætt er að segja að KR hafi fengið gula spjaldið í Ásgarði í kvöld og klárt mál að Vesturbæingar vanmátu stórlega Stjörnumenn. Garðbæingar áttu góðan dag í dag þar sem mikilvæg framlög komu úr öllum áttum á meðan KR-ingar voru sem sofandi framan af leik.

Helgi Magnússon átti stóran þátt í sigri KR í kvöld með 13 stig en hann reyndi allan leikinn að vekja sína menn af værum blundi. Jakob Örn var stigahæstur með 21 stig og Jason Dourisseau kom honum næstur með 16 stig. Helgi Már gerði 13 en Jón Arnór Stefánsson hafði hægt um sig með 7 stig en hann gaf einnig 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst.

Hjá Stjörnunni var Jovan Zdravevski með 25 stig og 9 fráköst en Justin Shouse gerði 15 stig og Kjartan Atli var með 11 sem og Hilmar Geirsson og næstur var Guðjón Lárusson með 10 stig.

[email protected]

 

{mosimage}

 {mosimage}

{mosimage}
(Bendikt var fjarri því sáttur við fyrri hálfleik hjá KR)

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -