spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar mega teljast heppnir með sigur

Grindvíkingar mega teljast heppnir með sigur


Sverrir Þór í dansi við Þorleif Ólafsson
Það voru Grindvíkingar sem fóru með sigur af hólmi í kvöld gegn Keflavík í gríðarlega skemmtilegum og spennandi leik í kvöld. 80-79 var lokastaða leiksins og voru gestirnir frá Keflavík hársbreidd frá því að hirða öll stig í boði.

Grindvíkingar mættu nokkuð ákveðnir til leiks á meðan gestirnir áttu í mesta basli. Eftir um 7 mínútna leik var staðan 20-4 heimamenn í vil og þó svo að Keflvíkingar hefðu átt nóg af gjaldeyri áttu þeir varla möguleika á því að kaupa stig svo lélegur var sóknarleikur þeirra.  23-8 var staðan eftir fyrsta fjórðung og allt leit út fyrir að Grindvíkingar myndu klára þennan leik á auðveldum nótum.

 

En Keflvíkingar eru nú þekktir fyrir allt annað en að leggja árar í bát og eftir að byrjunarlið þeirra hafði  verið með hálf sofandi voru það mennirnir á bekknum sem komu inná og börðust af krafti hjá Keflvíkingum. Þeir kveiktu loksins í liði sínu á meðan Grindvíkingar hættu hreinlega að spila körfubolta.

 

Aðeins 3 stig skildu liðin af í hálfleik og það voru Grindvíkingar sem komu örlítið hressari til leiks í seinni hálfleik en í þetta sinn gáfu Keflvíkingar þeim ekki færi á að stinga af líkt og í fyrsta leikhluta. Leikurinn var hníf jafn allt þangað til á loka mínútunum.  Þegar um 20 sekúndur voru eftir fékk Gunnar Stefánsson 2 víti og setti þau bæði niður og jafnaði leikinn 78-78.  En hinumegin var það Þorleifur Ólafsson sem setti niður “floater” af spjaldinu í erfiðri stöðu og kom Grindvíkingum 2 stigum yfir.  Keflvíkingar fóru í sókn og eitthvað gekk brösulega hjá þeim en það hjálpaði þeim að heimamenn voru of ákafir og brutu á Gunnari Stefánssyni þegar 6 sekúndur voru eftir. Gunnar setti niður fyrra vítið en klikkaði á því seinna. 

 

Keflvíkingar náðu að brjóta fljótlega á Páli Kristinssyni sem fór á línuna hinumegin og klikkaði á báðum vítunum. Sverrir Þór Sverrisson átti svo lokaskotið rúmlega frá miðju og það var alls ekki fjarri lagi að fara ofaní en geigaði þó og heimamenn fögnuðu sigri.

 

Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson gríðarlega öflugur með 21 stig og næstur honum var gamli refurinn Sverrir Þór Sverrisson með 19 stig og 7 stoðsendingar. Hjá heimamönnum var það Brenton Birmingham sem setti niður mikilvæg stig í síðari hálfleik og endaði leikinn með 19 stig.

Fréttir
- Auglýsing -