21:27
{mosimage}
(Sveinbjörn Claessen var drjúgur fyrir ÍR í Hólminum í kvöld)
Í kvöld voru ÍR mættir í Hólminn að mæta Snæfelli, fyrir leikinn höfðu þeir unnið einn leik og voru næstneðstir með 2 stig. Snæfellingar unnu sinn þriðja leik síðast á móti Breiðablik og komust í 5. sætið með 6 stig og því mikil barátta um stigin þetta kvöldið. Dómarar voru þeir léttfættu Kristinn Óskarsson og Halldór G. Jensson.
Eftir létt klukkuvandræði byrjuðu bæði lið af krafti og var fyrsti hlutinn nokkuð jafn þó ÍR leiddi með um 2 stigum framan af en Snæfellingar komust svo yfir með þrist frá Sigga sem var að fara fyrir sínum mönnum og hafði sett 13 stig í hlutanum. Eiríkur Önundarson stjórnaði sínum mönnum af harðfylgni og var kominn með 8 stig snemma og eins og segir leikurinn jafn í byrjun. Snæfell leiddi svo 25-23 eftir fyrsta hlutann.
Liðin skiptust á framan af öðrum hluta að leiða leikinn sem var skemmtilegur á að horfa og var jafnt til að mynda 34-34 eftir 5 mín. Snæfellingar voru að skiptast á 2-3 svæði og maður á mann vörn sem gekk betur. Einhverjir leiktilburðir voru hjá Sveinbirni sem féll fullauðveldlega eftir viðskipti við Hlyn Bærings en fékk dæmt á. Kristinn sá þó smá tilefni til áminningar um frekari óskarstilnefningar. ÍR tók af skarið og refsuðu Snæfelli fyrir lélegar sendingar, slæma hittni og mjög slakar sóknir og voru þeir hreinlega að taka leikinn í sínar hendur og settu sín skot niður á réttum augnablikum. ÍR leiddi í hálfleik 39-50.
Hjá Snæfelli var Siggi Þorvalds kominn með 15 stig. Hlynur með 7 stig og 4 fráköst. Nonni og Magni með sín hvor 6 stigin. Hjá ÍR voru Sveinbjörn með 12 stig og Eiríkur með 10 að fara fyrir sínum mönnum og Steinar Arason var með 7 stig. Ómar hafði tekið 6 fráköst.
Snæfellingar höfðu fengið sér hressingu í leikhlé og komu sprækari til leiks þó sendingaæfingar mætti iðka frekar. ÍRingar brutu meira á Snæfellingum sem græddu aðeins á vítalínunni og misstu forskotið aðeins niður þó þeir leiddu. Eiríkur var þó að setja stórar körfur og hélt sínum mönnum við efnið og komust aftur í 11 stiga forskot 50-61 með 2 þristum frá honum. Gunnlaugur Smárason kom þá og setti 5 stig og var sprækur fyrir Snæfellinga og gaf þeim von að narta í hæla gestanna. Skotklukkukarfa Magna gaf Snæfelli 3 stig að auki og náðu þeir góðum kafla og undirstrikaði Magni sinn þátt með blokki leiksins og staðan 62-64. Stóru stóru körfurnar voru að detta beggja megin hjá liðunum í lok þriðja hluta og það var svo Nonni sem jafnaði með 2 stigum og víti 65-65 og Eiríkur Önundar títt nefndur átti flautuþrist í lokin og leiddi ÍR 65-68 fyrir lokaátökin.
Þótt ekki bæri mikið í milli voru ÍR menn að leiða og Snæfell að elta en sóknarleikur Snæfells að skána en það var eins og ÍR gætu ekki klikkað á skoti og var hinn skrefgóði Ólafur Ingvason að setja nokkrar góðar og var snöggur á köflum. Ómar Sævars fékk sína 5. villu eftir brot á Hlyn auk tæknivillu fyrir æsing í kjölfarið. Staðan var þá 81-85 fyrir ÍR og allt í gangi og 3:30 á klukkunni. Ólafur Aron Ingvason var duglegur að stela boltanum og gríðarlega seigur í að keyra inn í teiginn og hafði sett þau allmörg mikilvæg á lokakaflanum. Leikurinn virtist þróast yfirleitt þannig að ef Snæfell kom til baka í 3-4 stig þá náðu ÍR breiki og sigldu aðeins frá aftur þetta 7-10 stig. Eltingaleikur var í lokin eftir að Nonni setti 3 fyrir Snæfell og Hreggviður 2 strax á eftir fyrir ÍR og staðan 86-91 fyrir gestina.
Þorsteinn Húnfjörð var með risablokk í lokin á Atla Rafn og endaði leikurinn 86-91 fyrir ÍR sem eru komnir með sinn annan sigur í sínum lífróðri en Snæfellingar þurfa að fara að koma betra jafnvægi eigi leikir að vinnast.
Hjá Snæfelli var Siggi með 28 stig og Nonni 23 stig og 9 fráköst. Hlynur var með 13 stig og 12 fráköst og ljóst að það þurfa fleiri að eiga betri leik en þeir þrír ef allt á að ganga upp. ÍR strákarnir gerðu góða ferð og fór Eiríkur fyrir þeim með 21 stig og Sveinbjörn 20 stig og 5 fráköst. Ólafur A. Ingvason hélt ÍR liðinu algjörlega á floti í 4 hluta og skoraði 18 stig. Ómar tók 8 fráköst og mátti sín lítils í stiga skori en vinur hans Hreggviður setti 11 stig.
Símon B. Hjaltalín
Mynd úr safni: [email protected]



