10:43
{mosimage}
Igor Beljanski stýrði Skallagrím í fyrsta skipti í gær
Tindastóll lék gegn gestunum frá Borgarnesi í gærkvöld í Síkinu á Sauðárkróki. Gestirnir mættu með tvo nýja erlenda leikmenn, þá Igor Beljanski og Miroslav Andanov. Hjá Stólunum var Allan Fall að leika sinn fyrsta heimaleik eftir að hann kom á Krókinn og hann byrjaði gegn sínum fyrrum félögum í Skallagrími. Byrjunarlið gestanna var; Pálmi, Finnur, Sveinn, Igor og Bjarne. Fyrir gestgjafana byrjuðu Darrell, Hreinn, Svavar, Ísak og áðurnefndur Allan Fall.
Tindastóll byrjaði af þokkalegum krafti leikinn og náði strax forystunni. Eftir fimm mínútna leik var staðan 15 – 5. Þá virtist færast einhvern deyfð yfir þá og Skallagrímsmenn komust meira og meira inn í leikinn. Beljanski reyndist heimamönnum erfiður í teignum og þeir komu muninum niður í fjögur stig 19 – 15. Staðan var svo 25 – 19 að loknum fyrsta leikhluta.
Igor hélt áfram að stríða Stólunum í öðrum fjórðungi og setti niður 7 stig af fyrstu tíu stigum gestanna. Munurinn orðinn þrjú stig eftir fjórar mínútur og sumum heimamanna leist ekki á blikuna. Þá kom góður kafli Tindastóls, tvær þriggja stiga körfur í röð frá Ísaki og körfur frá Helga Rafni og Allan settu muninn aftur í þægilega stöðu fyrir Stólana. Staðan 42 – 29. Skallagrímsmenn klóruðu aðeins í bakkann og Sveinn Davíðsson lokaði fyrri hálfleik fyrir þá með þristi og munurinn 7 stig í hálfleik. Igor Beljanski var allt í öllu fyrir sína menn í fyrri hálfleik og setti niður sautján kvikindi í hálfleiknum. Hann var hinsvegar kominn með þrjár villur sem hann fékk allar í öðrum leikhluta. Hjá Stólunum var engin mjög áberandi, þó var Flake kominn með 12 stig og Ísak tíu. Staðan í hálfleik 46 – 39.
Í þriðja leikhluta náðu svo Tindastólsmenn að hrista gestina af sér. Unnu leikhlutann með 11 stiga mun og komu sér í þægilega stöðu fyrir síðasta fjórðung. Beljanski var áfram besti maður Skallagríms í 3. leikhluta, en fékk sína fjórðu villu um fjórðunginn miðjan og varð að setjast á bekkinn. Ekki bætti úr skák fyrir gestina að Finnur fékk þrjár villur á stuttum tíma undir lok leikhlutans og náði þar með að fylla villukvóta sinn og fór því af leikvelli. Hjá Stólunum sáu Soren og Allan að mestu um stigaskorið í þessum leikhluta. Staðan 72 – 54 og Tindastóll virtist vera að sigla tiltölulega auðveldum sigri í höfn.
Skallagrímsmenn reyndu þó að krafla í muninn í byrjun síðasta leikhluta og skoruðu 7 – 2 á heimamenn fyrstu tvær mínúturnar. Kiddi tók þá leikhlé og ýtti aðeins við sínum mönnum. Það hafði til ætluð áhrif og ekki bætti úr skák að Beljanski fékk fljótlega sína fimmtu villu og síðan tæknivillu í kjölfarið. Þá var mesti vindurinn úr gestunum og Tindastóll jók muninn jafnt og þétt til leiksloka. Að vísu setti nýi maðurinn Andanov tvo þrista í röð fyrir Skallagrím þegar tæpar fimm mínútur voru eftir, en það voru síðustu stig þeirra í leiknum og Stólarnir skoruðu síðustu 13 stig leiksins. Yngri og reynsluminni leikmenn fengu að spreyta sig hjá báðum liðum undir lokin. Niðurstaðan 92 – 67 stiga sigur heimamanna í frekar rislitlum leik.
Tindastólsliðið var nokkuð jafnt að getu í kvöld, þó var Daninn Soren Flæng bestur og setti niður 23 stig, Ísak og Allan Fall áttu líka prýðisleik. Vítahittnin hjá liðinu var þó lítið til að hrópa húrra fyrir, en hún var aðeins tæp 65 prósent. Hjá gestunum var Beljanski lang bestur, skoraði tæplega helming stiga Skallagríms eða 31. Næstir komu Pálmi og Andanov með 11 stig. Hann virkaði reyndar nokkuð þungur í kvöld, en kannski sat ferðaþreyta í honum. Skallarnir voru með 25 tapaða bolta í kvöld og það er alltof mikið fyrir hvaða lið sem er.
Tölfræði leiksins.
Stig Tindastóls: Flæng 23, Flake 16, Fall 15, Svavar 15, Ísak 13, Helgi Rafn 6, Halldór og Hreinn 2 stig hvor.
Skallagrímur: Beljanski 31, Andanov 11, Pálmi 11, Sveinn 7, Sigurður 4 og Trausti 3.
Jóhann Sigmarsson
Mynd: Sigga Leifs



