spot_img
HomeFréttirSvavar Birgisson lék Þórsara aftur grátt (Umfjöllun)

Svavar Birgisson lék Þórsara aftur grátt (Umfjöllun)

23:26

{mosimage}

Í kvöld tóku Þórsarar á móti Tindastól í 8. umferð Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Innbyrðisviðureignir þessara liða í fyrra voru háspenna lífshætta og engin breyting var á því í kvöld. Framan af leiknum voru Tindastóll skrefinu á undan, hins vegar byrjuðu heimamenn seinni hálfleik af miklum krafti og voru með ágætis stöðu þegar síðasti leikhluti hófst. Góður endasprettur Tindastóls skilaði þeim þó góðum útivallar sigri, 77:82.

Leikurinn fór frekar rólega af stað og bæði lið báru greinilega töluverða virðingu fyrir hvort öðru. Hins vegar voru það Stólarnir sem höfðu lengi vel frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Þórsarar áttu þó góðan endasprett í lok fyrsta leikhlutarins og náðu að breyta stöðunni úr 10:15 í 19:17 og leiddu því leikinn með tveimur stigum þegar fyrsta leikhluta lauk. Annar leikhluti var frekar sveiflukenndur, en heimamenn byrjuðu leikhlutan betur en gestirnir og náðu fljótt sex stiga forystu, 27-21. Þegar líða tók á fjórðungin náðu Stólarnir frumkvæðinu enda áttu Þórsarar í töluverðum vandræðum með gestina inn í teignum sem tóku sóknarfráköst nánast að vild. Undir lok annars leikhluta náðu Stólarnir fjögurra stiga forystu, 32:36 en þá settu Þórsarar aukinn kraft í sóknarleikinn og þegar öðrum leikhluta lauk var staðan orðin jöfn, 39:39 og þannig var staðan í hálfleik.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn töluvert betur en heimamenn og náðu fljótt frumkvæðinu. Heimamönnum fannst halla töluvert á sig í byrjun þriðja leikhluta og létu ákvarðanir dómaranna fara í taugarnar á sér. Hins vegar í seinni hluta þriðja leikhlutarins fékk Guðmundur Jónsson, óskiljanlega tæknivillu, en sú tæknivilla virtist heldur betur kveikja bæði í áhorfendum og ekki síst stuðningsmönnum Þórs. Eftir þessa tæknivillu náðu Þórsarar að snúa leiknum sér í vil og með góðum spretti frá Cedric náðu heimamenn fimm stiga forystu áður en fjórðungnum lauk og staðan varð því eftir þriðja leikhluta, 63:58 heimamönnum í vil. Fjórði leikhluti var síðan háspenna allt til loka og hver sekúnda í leiknum skipti máli. Þórsarar byrjuðu leikhlutann mjög sterkt og með góðum leikkafla í byrjun náðu þeir 11 stiga forystu, 72:61 og varð þá Kristinni Friðrikssyni nóg boðið og tók leikhlé. Þetta leikhlé Kidda ,,Gun” virtist svín virka og komu Stólarnir ákveðnari til leiks. Smá saman náðu Stólarnir að saxa á forskot strákanna okkar sem virtust eiga fá svör við leik Stólanna. Tindastóll átti síðan magnaðan lokakafla og þegar um hálf mínúta var eftir setti Svavar Birgisson mikilvægan þrist niður fyrir gestinna sem kom þeim þremur stigum yfir, 77:80. Baldur Ingi freistaði þess að jafna metin en því miður fyrir strákanna okkar geigaði skot hans og heimamenn þurftu að brjóta tvisvar á Stólunum á skömmum tíma og loks komust Stólarnir á vítapunktinn. Stólarnir náðu að nýta þessi tvö síðustu vítaskot sín og sigur varð því höfn, 77:82. Þess má geta að Tindastóll skoraði á síðustu 1:40 mínútunum 14 stig á meðan heimamenn náðu aðeins að setja niður eitt stig. Því sanngjarn 77:82 sigur Tindastóls staðreynd.

Það tók Þórsara langan tíma til að komast í gang í leiknum og áttu þeir lengi vel í miklum vandræðum með þá Darrel Flake og Sören Flæng undir körfunni, enda náðu þeir félagar sóknarfráköstum hvað eftir annað. Cedric Isom spilaði sinn vanalega leik enda setti hann niður 33 stig í leiknum, einnig átti Baldur Ingi góðan leik og setti niður 4 þrista og Guðmundur Jónsson átti einnig ágætis spretti inn á milli sem og Bjarki Oddsson var mjög baráttuglaður í vörninni. Þórsarar söknuðu greinilega fyrirliðans Hrafns Jóhannessonar sem var því miður veikur heima. Einnig var Óðinn Ásgeirsson ekki að spila á fullum krafti þar sem hann spilaði hann meiddur í kvöld og setti aðeins niður 2 stig. Tindastóll gerði það sem gera þurfti. Þeir hættu aldrei þó svo að staðan væri orðin ansi dökk í byrjun fjórða leikhluta. Darrell Flake og Sören Flæng voru öflugir fyrir Tindastól inn í teignum. Alan Fall átti fína spretti í sókninni en í vörninni átti hann litið roð í Cedric Isom. Svavar Birgisson stríddi Þórsurum enn og aftur, setti niður 18 stig og þar af mikilvægan þrist sem kláraði nánast leikinn fyrir Tindastól. En sanngjarn sigur Tindastóls þó staðreynd.

Nánari umfjöllun og viðtöl við þjálfara liðanna má lesa á heimasíðu Þórs.

Tölfræði leiksins

Sölmundur Karl Pálsson

Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Fréttir
- Auglýsing -