10:35
{mosimage}
(Sigurður Ingimundarson)
Karfan.is náði tali af Sigurði Ingimundarsyni þjálfara Íslandsmeistara Keflavíkur sem mæta Stjörnunni í áttundu umferð Iceland Express deildarinnar í kvöld. Sigurður á von á hörkuleik í Toyotahöllinni í kvöld en bæði Keflavík og Stjarnan máttu sætta sig við nauma ósigra í síðustu umferð.
Bragi og félagar í Stjörnunni mæta í kvöld. Þeir lágu naumlega gegn KR í síðasta leik og þið sömuleiðis gegn Grindavík. Fáum við ekki baráttuleik í Toyotahöllinni í kvöld?
Já , flottur leikur í kvöld gegn Stjörnunni, þeir hafa á að skipa fínu liði sem er að spila skemmtilgan körfubolta. Þetta verður væntanlega hörkuleikur og jafn allan tímann.
Þið í Keflavík hafið verið að glíma við meiðsli en hver er staðan á hópnum. Verður Þröstur lengi frá og er Gunnar Einarsson með í kvöld?
Já, Þröstur verður frá fram að áramótum en Gunnar Einarsson verður með í kvöld og virðist vera kominn í gott lag.
Hvernig finnst þér Keflavíkurliðinu hafa tekist að aðlaga sig að þeim breytingum sem urðu skömmu fyrir mót þegar erlendu leikmennirnir voru sendir heim?
Keflavíkurliðið sem og önnur lið hafa verið að aðlagast breyttum aðstæðum og hefur það gengið ágætlega svona í byrjun en við erum öruggir með að okkar leikur á eftir að batna þegar líður á mótið og er unnið hörðum höndum að því alla daga.
Kollegi þinn í Grindavík, Friðrik Ragnarsson, sagði í samtali við Karfan.is í gær að ef KR sendi ekki sinn kana heim sæi hann sér ekki annan leik á borði en að Grindavík myndi fá sér kana bráðlega. Er eitthvað slíkt á teikniborðinu eða inni í myndinni hjá Keflavík?
Við erum ekki að velta fyrir okkur hvað önnur lið gera í sínum málum og við erum ekki að fara að fá okkur liðsstyrk!
Verandi landsliðsþjálfari, hvernig kanntu við aðstæður í Iceland Express deildinni í dag?
Mér finnst sem landsliðsþjálfari að staðan núna er nokkuð spennandi þar sem fullt af leikmönnum fá stærri hlutverk hjá sínum liðum og gaman að sjá hvernig þeir takast á við það.



