spot_img
HomeFréttirÁgúst: Reynsla Hauka og heimavöllurinn mun ráða úrslitum!

Ágúst: Reynsla Hauka og heimavöllurinn mun ráða úrslitum!

07:15
{mosimage}

(Ágúst Björgvinsson að stjórna landsliðsæfingu síðasta sumar)

Landsliðsþjálfari kvennalandsliðs Íslands í körfuknattleik, Ágúst Sigurður Björgvinsson, veit sitt hvað um toppslaginn sem fram fer í kvöld þegar Haukar taka á móti Hamri í Iceland Express deild kvenna. Karfan.is fékk Ágúst til þess að rýna í viðureignina en þjálfarar Hamar og Hauka hafa báðir verið aðstoðarþjálfarar hjá Ágústi. Yngi Gunnlaugsson var með Ágústi sem aðstoðarþjálfari Haukaliðsins en Ari Gunnarsson þjálfari Hamarsvkenna er aðstoðarþjálfari Ágústar í dag með karlalið Hamars í 1. deild. Ágúst segir Haukana sigurstranglegri í leiknum þar sem leikurinn fer fram að Ásvöllum en þar eru Hamarskonur ósigraðar.

Hvernig verða byrjunarliðin?
Hjá Hamri fer það eftir því hvort Fanney Guðmundsdóttir verði með eða ekki. Hún er búin að vera meidd og lék ekki með gegn Keflavík. Ef Fanney er í lagi hlýtur Ari að byrja með Fanney og Juliu undir körfunni. Svo eru það LaKiste Barkus og Jóhann og þessar fjórar fyrir utan Fanney hafa byrjað allla leikina. Svo er það spurning með Hafrúnu eða Írisi. Ef Fanney er ekki þá byrja Hafrún og Íris inn á. Hjá Haukum eru Ragna Margrét og Telma Fjalars undir körfunni, Kristrún og Slavica verða í bakvarðastöðunum og það er fróðlegt að sjá hver verður fimmta inn í liðið. Guðbjörg Sverrisdóttir hefur verið að koma af bekknum og þá geri ég ráð fyrir að Helena Hólm verði í byrjunarliðinu.


Hverjir dekka hvern?
Ætli Ragna Margrét dekki ekki Juliu og Telma mætir Fanney í teignum. Þetta er líklegt og ég spái því að Kristrún byrji á því að dekka Barkus og Jóhanna verði fyrst á Slavicu.

Hvar hafa liðin forskot á hvert annað?
Ég myndi segja að Haukarnir hafi það yfir Hamar að leika svona toppleiki og hafa leikið svona stóra leiki í nokkur ár. Leikurinn er á heimavelli Hauka þar sem þær hafa ekki tapað í vetur. Það sem er líka merkilegt við þennan leik er að Hamar hefur aldrei unnið Hauka í efstu deild. Það er svolítið stór þröskuldur fyrir Hamar en pressan er á Haukum. Þó Hamar hafi byrjað vel eru Haukar taldar stærra liðið og Hamar tapaði stærra en flestir bjuggust við í leiknum gegn Keflavík um daginn en ég er viss um að þar munaði mikið um Fanneyju. Haukar eru að skjóta frábærlega fyrir utan þriggja stiga línuna. Kristrún og Slavica eru að skjóta vel og jafnvægið inni í teig og fyrir utan er meira hjá Haukum. Þó kemur á móti að Barkus er einn besti leikmaður deildarinnar þó hún hafi ekki verið að leika eins vel og hún á að sér undanfarið. Leikurinn fer svolítið eftir því hvernig Haukum tekst að stoppa Barkus. Það mun reyna mikið á Juliu Dermirer í frákástabaráttunni gegn Rögnu og Telmu.

Hvað mun ráða úrslitum í leiknum?
Það er erfitt að segja en ég segi að það sem muni ráða úrslitum sé reynsla Haukanna og heimavöllurinn.

Hvaða leikmenn eru líklegastir til að taka leikinn í sínar hendur?
Miðað við undanfarna leiki þá er það LaKiste Barkus hjá Hamri og maður hefur beðið svolítið eftir stórleik hjá henni. Ef hún á góðan leik þá verður þetta erfitt fyrir Hauka og nú er komin smá pressa frá Hamri að Barkus eigi góðan leik. Hjá Haukum hefur Kristrún verið frábær í haust. Kristrún hefur nánast spilað óaðfinnanlega með eitthvað í kringum 20 stig á leik eða meira.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -