23:19
{mosimage}
(Sveinn Ómar Sveinsson var stigahæstur Hauka)
Það var boðið upp á alvöru bikarleik á Ásvöllum í kvöld þegar að 1. deildarlið Hauka slógu Úrvalsdeildarlið Breiðabliks úr Subwaybikarnum. Haukar fóru mikinn í fjórða leikhluta og unnu hann með 18 stiga mun eftir að hafa verið 10 stigum undir fyrir leikhlutann og sigruðu að lokum 83-75.
Leikurinn er sérstæður að vissu leiti en Haukum hefur ekki gengið vel í bikar undanfarin ár og er þetta í fyrsta skiptið í langan tíma sem að þeir komast í 16 liða úrslit. Einnig hefur það aðeins nokkrum sinnum komið fyrir að 1. deildar lið leggji Úrvalsdeildarlið að velli.
Nemanja Sovic braut á Helga Einarssyni fyrir utan þriggjastigalínuna í fyrstu sókn leiksins og Helgi fékk þrjú skot. Helgi setti niður öll þrjú skotin og Haukar leiddu 3-0. Hin eitraða skytta Kristján Sigurðsson svaraði Haukum með tveimur þriggjastiga körfum og kom Blikum yfir 3-6 en Kristján skoraði 8 fyrstu stig Breiðabliks. Blikar komust 7 stigum yfir undir lok fyrsta leikhluta, 14-21. Haukar náðu að minnka muninn með þriggjastigakörfu og leikhlutanum lauk 17-23.
Haukar byrjuðu betur í öðrum leikhluta og skoruðu fjögur stig og minnkuðu muninn í tvö stig, 21-23. Blikar tóku við sér og settu niður 8 næstu stig og var munurinn orðinn 10 stig en þristar frá Sveini Ómari Sveinssyni og Lúðvíki Bjarnasyni héldu Haukum á floti. Haukar héldu áfram að minnka muninn og náðu t.a.m. að minnka hann niður í eitt stig, 33-34. Blikar settu niður næstu 6 stig og staðan í hálfleik var 33-40 Blikum í vil.
{mosimage}
Þriðji leikhlut var nokkuð jafn og skiptust liðin á að skora en Blikar voru ávallt skrefinu á undan. Loftur Einarsson setti niður góðan þrist um miðbik leikhlutans og karfa frá Daníel Guðmundssyni í kjölfarið kom Blikum ellefu stigum yfir og virtist Breiðablik vera með pálman í höndunum. Haukar minnkuðu muninn um tvö stig áður en leikhlutanum lauk en Breiðablik náði mest tólf stiga forystu. Blikar leiddu með 10 stigum, 55-65, þegar flautan gall.
Haukar komu einbeittir til leik í fjórða leikhluta og það tók þá ekki nema rúmlega þrjár mínútur að komast yfir. Á þessum tíma skoruðu Haukar þrjár þriggjastiga körfur og náðu 13-2 spretti. Það má segja að þessi sprettur Hauka hafi komið flatt upp á Blika. Leikmenn Breiðabliks virtust ringlaðir og Haukar gengu á lagið, komust sjö stigum yfir og létu forystuna aldrei af hendi það sem eftir var af leikhlutanum. Haukar sigruðu loks með átta stigum 83-75 og eru því komnir áfram í Subwaybikarnum.
Stigahæstur í liði Hauka var Sveinn Ómar Sveinsson með 20 stig og 5 fráköst en hann lét lítið fyrir sér fara framan af leik. Kristinn Jónasson var með 18 stig og 9 fráköst og Lúðvík Bjarnason setti niður 17 (5 af 8 í þriggjastigaskotum).
Hjá Breiðablik var Rúnar Erlingsson drjúgur með 21 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Loftur Einarsson var með 16 stig og 6 fráköst og Kristján Sigurðsson var með 15 stig.
Stigamaskínan Nemanja Sovic lét lítið fyrir sér fara og skoraði aðeins 6 stig en það voru 6 síðustu stig Blika í leiknum.
Byrjunarlið Hauka: Óskar I. Magnússon, Lúðvík Bjarnason, Helgi Einarsson, Sveinn Ómar Sveinsson og Kristinn Jónasson.
Byrjunarlið Breiðabliks: Rúnar I. Erlingsson, Daníel Guðmundsson, Kristján Sigurðsson, Loftur Einarsson og Nemanja Sovic.
Myndir: [email protected]



