22:56
{mosimage}
(Eiríkur Þór Sigurðsson, nýr leikmaður Vals)
Valsmenn tóku á móti Hrunamönnum í 32 liða úrslitum Subwaybikarsins að Hlíðarenda fyrr í kvöld. Þessi lið áttust einnig við í 1. Deildinni fyrir um það bil viku síðan þar sem Hrunamenn fóru með nauman sigur á hólmi. Valsmenn sýndu mun betri varnarleik í þetta skiptið en Hrunamenn skoruðu 38 stigum minna en í seinasta leik. Valsmenn voru mun ákveðnari í kvöld og höfðu frumkvæðið allan leikinn. Þegar leið á jókst forskot heimamanna hægt og rólega. Leikurinn endaði svo með 30 stiga sigri Valsmanna, 107-77. Því miður hefur statistík leiksins ekki borist á tölfræðivef KKI.is og þess vegna ekki vitað um stigahæstu menn.
Hrunamenn byrjuðu leikinn af krafti og pressuðu allan völlinn. Liðin voru þó nokkuð jöfn á upphafsmínútunum. Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru allar tölur hnífjafnar, 12-12. Valsmenn áttu hins vegar eitthvað inni því þeir tóku af skarið og náðu ágætis forskoti. Þegar ein mínúta var eftir var munurinn kominn í 7 stig, 25-18. Gestirnir svöruðu hins vegar fyrir sig á lokamínútunni og endaði leikhlutinn 27-23.
Valsmenn virtust öruggari í sínum sóknarleik en Hrunamenn í öðrum leikhluta og fengu gestirnir flest sín stig af vítalínunni. Heimamenn náðu muninum upp í 10 stig fljótlega í leikhlutanum og þannig stóðu tölur meirihluta leikhlutans. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 54-44.
{mosimage}
Valsmenn bættu í forskotið í upphafi þriðja leikhluta og spiluðu fantagóða vörn. Hrunamenn skoruðu nánast ekki stig nema af vítalínunni og áttu í bullandi vandræðum með að finna opið skot. Þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður var munurinn kominn upp í 20 stig, 70-50. Valsmenn fengu þó að finna fyrir því að spila þá vörn sem þeir voru að spila því villunum rigndi yfir þá og voru allir 9 leikmenn liðsins sem þá höfðu komið við sögu komnir með 2 villur eða fleiri. Hörður Hreiðarsson fór hreinlega á kostum í seinni hluta þriðja leikhluta og skoraði margar mikilvægar körfur fyrir Valsmenn. Þegar þriðja leikhluta var lokið höfðu Valsmenn náð forskotinu upp í 30 stig, 91-61.
Fjórði leikhluti var því í raun aðeins formsatriðið fyrir heimamenn sem virtust gleyma sér aðeins á upphafsmínútunum. Hrunamenn unnu fyrstu tvær mínútur fjórða leikhluta 10-2 og virtust Valsmenn hafa sofnað allhressilega á verðinum. Ekki hjálpaði það þegar Steingrímur Ingólfsson og Guðumdur Kristjánsson fóru báðir útaf með 5 villur á næstu mínútum. Valsmenn vöknuðu þó aftur til lífsins á lokakaflanum og höfðu á endanum 30 stiga sigur, 107-77.
{mosimage}
Umfjöllun og myndir : Gísli Ólafsson



