21:40
{mosimage}
(Helga Einarsdóttir gerði 8 stig og tók 9 fráköst fyrir KR í kvöld)
KR komst í kvöld upp að hlið Hamars og Keflavíkur í annað sætið með mögnuðum lokaspretti gegn Grindavík í fyrsta leik áttundu umferðar í Iceland Express deild kvenna. KR-ingar fóru hamförum í fjórða og síðasta leikhluta og keyrðu Grindvíkinga í kaf með systurnar Sigrúnu og Guðrúnu Ámundadættur í broddi fylkingar. Lokatölur leiksins voru 68-56 KR í vil þar sem Sigrún Ámundadóttir gerði 22 stig og tók 16 fráköst hjá KR. Ingibjörg Jakobsdóttir var með 15 stig og 3 fráköst í liði Grindavíkur sem sprakk á lokasprettinum eftir að hafa leitt leikinn fyrstu þrjá leikhlutana. KR gerði 31 stig gegn 17 frá Grindavík í fjórða leikhluta en framan af leik var sóknarleikur KR fjarri góðu gamni.
Sigrún Ámundadóttir opnaði leikinn með þriggja stiga körfu fyrir KR en Grindvíkingar tóku fljótt völdin og leiddu lengi vel. Sigrún gerði sjö fyrstu stig KR og var eina með lífsmarki í heimaliðinu framan af á meðan gestirnir léku vel. KR skipti snemma í svæðisvörn og gekk hún þokkalega. Í stöðunni 15-16 fyrir Grindavík fékk bekkur gestanna dæmda á sig tæknivillu og benti allt til þess að KR myndi taka fínan lokasprett í leikhlutanum en gestirnir héldu haus og leiddu 15-18 eftir fyrsta leikhluta.
Grindvíkingar höfðu áfram frumkvæðið í öðrum leikhluta og þær Helga Hallgrímsdóttir og Berglind Anna Magnúsdóttir börðust af miklum krafti fyrir gestina. Svæðisvörn KR skilaði þeim litlu í leikhlutanum og sóknarleikur þeirra var tilviljanakenndur og því leiddu gestirnir 26-34 í hálfleik.
Helga Hallgrímsdóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir voru stigahæstar hjá Grindavík í hálfleik báðar með 7 stig en hjá KR var Sigrún Ámundadóttir með 9 stig og Hildur Sigurðardóttir 8.
{mosimage}
(Ólöf Helga í erfiðu skoti)
Þriðji leikhluti hófst með látum en báðum liðum gekk illa að finna körfuna. Varnir beggja liða voru sterkar en sóknirnar hinsvegar máttlitlar á báða bóga. Skap leikmanna í báðum liðum gerði vart við sig en þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta fundu KR-ingar fjölina. Heimakonur náðu að saxa á forskot gestanna og staðan 37-39 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Gestirnir hófu lokasprettinn vel og gerðu 5-0 áhlaup á KR og breyttu stöðunni í 44-37. Eftir því sem líða tók á leikhlutann færðust KR-ingar nærri Grindavík og þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka tók KR öll völd á vellinum. Sigrún Ámundadóttir kom KR yfir í fyrsta sinn síðan í upphafi leiks og breytti stöðunni í 52-50. Við þetta var eins og KR tækist að brjóta ísinn og um leið baráttuþrek gestanna.
Systurnar Guðrún og Sigrún Ámundadætur úr Borgarnesi gerðu svo allt vitlaust. Guðrún kom með tvo mikilvæga þrista á skömmum tíma og sá síðari breytti stöðunni í 63-50 og þar með var björninn unninn. Sigrún systir hennar fór hamförum í teignum og frákastaði vel í báðum endum sem og að skora mikilvæg stig.
Þrjú lið eru því jöfn núna í 2. sæti deildarinnar, Keflavík, Hamar og KR en Haukar sitja á toppnum með 12 stig en Grindavík og Valur eru jöfn í 5.-6. sæti með 6 stig. Línurnar eru eitthvað farnar að skýrast en fastlega má gera ráð fyrir því að Grindavík og Valur eigi eftir að gera harða atlögu að sæti í A-hluta deildarinnar en þar komast aðeins fjögur efstu liðin að.
{mosimage}
(Helga Hallgrímsdóttir hefur rifið heilan haug af fráköstum niður fyrir gular í vetur)
Sigrún Ámundadóttir var sterkust í liði KR í kvöld með 22 stig, 16 fráköst og 3 stoðsendingar en henni næstar voru Hildur Sigurðardóttir og Guðrún Ámundadóttir báðar með 15 stig. Hildur var auk þess með 9 fráköst og 4 stoðsendingar.
Ingibjörg Jakobsdóttir gerði 15 stig fyrir Grindavík í kvöld sem tapaði sínum þriðja deildarleik í röð. Næst Ingibjörgu var Íris Sverrisdóttir með 9 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.
Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0zNzc=
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



