09:12:43
New Jersey Nets steinlágu í Staples Center í LA í nótt þar sem Lakers unnu á þeim stórsigur, 120-93. Lakers hafa því unnið 12 af fyrstu 13 leikjum sínum í deildinni.
Leikurinn var afar jafn framan af, en gestirnir byrjuðu betur og leiddu eftir fyrsta leikhluta. Staðan var svo 56-54 í hálfleik. Kobe Bryant náði sér alls ekki á strik og var í gjörgæslu hjá Vince Carter, en það var til lítils því á bekk Lakers er röð af leikmönnum til að taka við keflinu.
Í seinni hálfleik juku Lakers stöðugt við forskotið og skipti þar litlu þó lykilmenn væru hvíldir í fjórða leikhluta.
Pau Gasol var stigahæstur Lakers með 26 stig, þótt hann hafi ekkert komið inn á í fjórða leikhluta, og Jordan Farmar var með 18.
Hjá Nets var Devin Harris með 21 stig og nýliðinn Brook Lopez var með 17 stig og 10 fráköst.
Meðal annara úrslita næturinnar má þess geta að Washington fagnaði stórsigri á Golden State með nýjan stjóra, Ed Tapscott, í brúnni og LeBron James leiddi Cleveland til sigurs á NY Knicks.
Úrslit næturinnar:
Golden State 100
Washington 124
Cleveland 119
New York 101
Phoenix 99
Oklahoma City 98
Indiana 106
Dallas 109
New Jersey 93
LA Lakers 120
ÞJ



