11:30
{mosimage}
(Gísli og félagar í Álftanesi eiga það á hættu að ,,missa" heimavöllinn sinn)
Íþróttahúsið á Álftanesi varð fyrir töluverðum skemmdum í gær þegar vatn komst inn á parketið í húsinu. Verið var að vatnsprófa þakið á nýrri sundlaug sem verið er að byggja við íþróttahúsið með fyrrgreindum afleiðingum. Gísli Sigurðsson þjálfari og leikmaður Álftnesinga í 2. deild karla sagði tjónið koma afskaplega illa við sína menn en þegar hefðu góðir aðilar sýnt þeim skilning og slegið m.a. til æfingaleiks. Íþróttahúsið verður ekki opnað að nýju fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.
Stefán Arinbjarnarson íþrótta- og tómstundafulltrúi á Álftanesi sagði í samtali við Karfan.is að ekki væri enn vitað hversu slæmt ástandið væri. Neyðarteymi hefur verið að störfum í íþróttahúsinu með rakatæki og vatnssugur að vopni en töluvert vatnsmagn komst í parketgólfið í húsinu.
,,Ef gólfið sleppur nánast óskemmt er það nemendum 10. bekkjar í skólanum að þakka en þau voru í leikfimi þegar atvikið átti sér stað. Þetta voru um 40 krakkar sem þarna unnu björgunarafrek vopnuð fimleikadýnum og öllum þeim áhöldum sem fundust í húsinu og tókst þeim að ausa miklu vatni frá gólfinu. Ef þetta sleppur þá er það þessum krökkum nánast að öllu leiti að þakka,“ sagði Stefán um nemendurna fræknu.
Stefán sagði einnig að töluvert vatnsmagn hefði komist í gólfið en ekki sé fullvíst hvort parketið sé ónýtt. Í stuttu máli þá var verið að vatnsprófa þakið en niðurfall á þakinu liggur með einum vegg íþróttahússins. Þar komst vatnið í rör sem lá inn í íþróttahúsið og í þessum rörum voru tappar sem gáfu sig undan vatnsþrýstinginum. ,,Við erum að tala um einhver tonn af vatni,“ sagði Stefán og bætti við að starfsemi í húsinu lægi niðri hið minnsta fram yfir helgi. ,,Ef þetta fer vel þá er körfuboltaliðið okkar og fleiri ekki í vondum málum,“ sagði Stefán og því bíða margir Álftnesingar nú í von og óvon.
Gísli Sigurðsson þjálfari og leikmaður Álftaness sagði málið koma ákaflega illa við sína menn en þeir yrðu bara að bíða og sjá hvað myndi gerast. ,,Það er líklegt að parketið verði rifið upp en við höfum t.d. fengið æfingaleik við Ármann í kvöld. Gunnlaugur Elsuson vinur minn í Ármanni var svo almennilegur við okkur að gangast við æfingaleik. Næst er svo bara leikur í deildinni gegn Leikni á laugardag og krossa svo bara fingur eftir það,“ sagði Gísli í samtali við Karfan.is í dag. Körfuboltalið Álftaness bindur því nú sitt haldreipi við 10. bekkjarnema sem gerðu allt í sínu valdi til að bjarga parketinu. Hvort það hafi tekist eður ei verður viðleitni þeirra lengi í minnum höfð.
Mynd: Gunnar Gunnarsson



