spot_img
HomeFréttirHaukar gáfust aldrei upp! Kristrún fór á kostum (Umfjöllun)

Haukar gáfust aldrei upp! Kristrún fór á kostum (Umfjöllun)

22:24
{mosimage}

(Kristrún Sigurjónsdóttir brýtur sér leið upp að körfu Keflavíkur)

Uppgjöf virðist ekki vera til í orðabók Hauka sem í kvöld unnu stóran baráttusigur á Íslandsmeisturum Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna. Lokatölur leiksins voru 80-77 Haukum í vil sem voru undir nánast allan leikinn en brutu sér leið upp að hlið Keflavíkur á lokasprettinum og hirtu síðan stigin tvö af miklu harðfylgi. Kristrún Sigurjónsdóttir fór mikinn fyrir Hauka með 28 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 stolna bolta og tvö varin skot. Seinna varða skotið hjá Kristrúnu voru einhver mikilvægustu varnartilþrif leiksins er hún meinaði Hrönn Þorgrímsdóttur aðgang að Haukakörfunni þegar skammt var til leiksloka.

Keflvíkingar léku í kvöld án Ingibjargar Elvu Vilbergsdóttur en Marín Rós Karlsdóttir var að nýju í leikmannahópi Keflavíkur eftir langa fjarveru sökum meiðsla. Haukar eru enn ósigraðir á heimavelli og hafa nú í tvígang unnið stóra seiglusigra. Fyrst gegn Hamri í síðustu umferð og nú gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur. Birna Valgarðsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir fóru á kostum í liði Keflavíkur en meistararnir náðu ekki að halda haus á lokasprettinum á meðan Haukar stigu vart feilspor síðustu mínúturnar.

Haukar komust í 6-2 í fyrsta leikhluta en þá gerðu Keflvíkingar áhlaup og skoruðu næstu 9 stig og breyttu stöðunni í 6-11. Haukar komust ekki aftur yfir í leiknum fyrr en seint í fjórða leikhluta. Svava Ósk Stefánsdóttir skoraði tvo þrista með skömmu millibili fyrir Keflavík og kom gestunum í 12-19 en eftir fyrsta leikhluta leiddu Keflvíkingar 19-26.

Svava hélt áfram að hrella Hauka með þriggja stiga körfum í öðrum leikhluta og einn slíkur breytti stöðunni í 26-34 en skömmu síðar fengu þær Svava og Pálína Gunnlaugsdóttir sínar þriðju villur og urðu að hafa hægt um sig. Keflvíkingar voru þó ekki á flæðiskeri staddir því Haukar réðu ekkert við hina margreyndu Birnu Valgarðsdóttur sem skoraði nánast að vild í kvöld og lauk leik með 31 stig og 9 fráköst. Með Bryndísi Guðmundsdóttur fjarverandi hefur Birna farið meira inn í teig og viriðst kunna vel við sig í baráttunni á blokkinni en þær Telma B. Fjalarsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir í Haukum áttu lítið roð í Birnu að þessu sinni.

{mosimage}
(Pálína tvídekkuð á gamla heimavellinum)

Liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 35-46 fyrir Keflavík þar sem Hrönn Þorgrímsdóttir leikmaður Keflavíkur gerði síðustu körfu fyrri hálfleiks úr þriggja stiga skoti. Það hélt helst aftur af Haukum í fyrri hálfleik að Slavica Dimovska var ekki að hitta vel og tók því mikið til sín í Haukasókninni á meðan Keflvíkingar fengu vegleg framlög frá Birnu og Svövu.

Gestirnir voru áfram ákveðnari framan af síðari hálfleik og Svava minnti á sig með þrist fyrir Keflavík og kom sínu liði í 43-54. Ekki leið á löngu áður en Svava fékk sína fjórðu villu og gat því minna beitt sér í vörninni. Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta hrukku Haukar í gang og náðu að minnka muninn í eitt stig, 62-63, með glæstum lokaspretti þar sem Kristrún og Ragna Margrét fóru mikinn. Ragna Margrét leiddi frákastabaráttuna með 20 fráköst í kvöld og Haukar gjörsigruðu fráköstin með 62 stykki gegn aðeins 35 hjá Keflavík.

Sama hvað Haukar reyndu framan af leik tókst þeim ekki að jafna metin við Keflavík. Það var þó Ragna Margrét Brynjarsdóttir sem kveikti neistann í Haukum er hún kom rauðum yfir með körfu í teignum, 71-70. Keflvíkingar misstu ekki trúnna á verkefninu en Haukum óx ásmegin og fljótt hófust lykilleikmenn að týnast úr Keflavíkurliðinu með fimm villur.

Birna Valgarðsdóttir hafði ekki sagt sitt síðasta og gerði risavaxinn þrist þegar 3.10 mín. voru til leiksloka og staðan 73-76 fyrir Keflavík. Haukar gerðu næstu fimm stig og komust yfir 78-76 með fyrstu þriggja stiga körfu leiksins hjá Slavicu Dimovsku. Hér var rúm mínúta til leiksloka en næstu tvær sóknir liðanna runnu út í sandinn.

Þegar 48 sekúndur voru eftir af leiknum fékk Hrönn Þorgrímsdóttir góða sendingu inn í teiginn hjá Haukum og ekkert virtist geta hindrað hana í því að jafna metin en þá kom Kristrún Sigurjónsdóttir á hundavaði og varði skot Hrannar og hirti boltann af henni að auki. Glæst varnartilþrif sem höfðu úrslitaáhrif í leiknum. Á lokasprettinum voru bæði lið svo komin með skotrétt og í þeim rétti tókst Haukum að halda Keflavík fjarri og fagna mikilvægum sigri 80-77.

{mosimage}
(Stórleikur Birnu var ekki nóg fyrir Keflavík að þessu sinni)

Þær Kristrún Sigurjónsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir áttu sterkan leik fyrir Hauka í kvöld og verðlaun fyrir bestu frammistöðu í stuðningshlutverkum við Kristrúnu og Rögnu fá þær Telma B. Fjalarsdóttir og Slavica Dimovska sem rankaði við sér á hárréttum tíma fyrir Hauka.

Birna Valgarðsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir voru í sérflokki hjá Keflavík í kvöld. Birna með 31 stig og Svava með 22 stig og þar af 18 úr þriggja stiga skotum. Banabiti Keflavíkur var vafalítið stór ósigur þeirra í frákastabaráttunni og fjarvera lykilmanna sökum villuvandræða á lokasprettinum.

Haukar tróna nú á toppi deildarinnar með 14 stig, Hamar með 12 stig í 2. sæti og Keflavík og KR koma svo jöfn í 3.-4. sæti með 10 stig. Valskonur lögðu Fjölni í kvöld og hafa því 8 stig svo baráttan er enn gríðarleg um fjögur efstu sætin áður en deildinni verður skipt upp í A og B hluta.

Tölfræði leiksins

http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0zNzg=

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -