spot_img
HomeFréttirHraunað yfir Marbury

Hraunað yfir Marbury

20:33:05
 Dáðadrengurinn Stephon Marbury á í fá hús að venda í New York þessa dagana, en Quentin Richardson, framherji Knicks, gagnrýndi hann harðlega eftir tapið gegn Detroit Pistons í gær.

Sjá nánar hér að neðan: „Ég lít ekki á hann sem liðsfélaga”, sagði Richardson, en Marbury hefur neitað að taka þátt í tveimur síðustu leikjum Knicks þrátt fyrir að einungis átta leikmenn og þar af tveir bakverðir hafi verið leikfærir.

„Hann hefur ekki leikið með okkur í allt ár, en sama hvaða mál eru í gangi á milli þín og félagsins, eða þjálfarans, svíkur þú ekki félaga þína svona. Þetta kemur niður á okkur sama hvern þú ert að reyna að hanka. Þegar allt kemur til alls erum við fámannaðir, erum í meiðslum. En ég er hættur að hugsa um hann því ég lít ekki á hann sem liðsfélaga.”

Sápuóperan í kringum Marbury hefur staðið meira og minna allt frá því að hann kom til NY því hann hefur ósjaldan komið sér í vandræði. Í fyrra hófst svo eyðimerkurgangan hjá hoonum þar sem hann kom sér út úr húsi hjá Isiah Thomas, þáverandi þjálfara. Fyrir þetta tímabil var honum svo tjáð að hans þjónustu væri ekki óskað lengur í Madison Square Garden, en samningurinn hans rennur út í lok tímabils og fær hann rúmar 20 milljónir dala á þeim tíma.

NY hafa gefist upp á að reyna að skipta Marbury því hann er eins og geislavirkur í augum flestra forsvarsmanna í NBA-deildinni. Því hafa Knicks lagt ofurkapp á að reyna að kaupa hann út úr samningum hans, en Marbury er varla ginkeyptur fyrir því að taka á sig launalækkun.
   
Heimild: Yahoo! Sports/New York Daily News

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -