09:44:30
Tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt, þar sem Orlando vann Washington og New Orleans vann Denver.
Nánar um leikina hér að neðan: Dwight Howard var, sem fyrr, maðurinn á bak við 105-90 útisigur Orlando Magic á Washington Wizards, en hann gerði 26 stig, tók 14 fráköst og varði 3 bolta, en Hedo Turkoglu (20 stig, 10 frák.) og Anthony Johnson (12 stoðsendingar, enginn tapaður bolti) áttu líka góða spretti.
Orlando hafa því unnið 8 af síðustu 9 leikjum sínum og 6 síðustu útileiki. Þeir eru á toppi Suð-austur riðilsins með vinningshlutfallið 12-4, það þriðja besta í Austurdeildinni á eftir Boston og Cleveland.
Hjá Washington voru það Caron Butler og Antawn Jamison sem drógu vagninn, Butler var með 25 stig og Jamison 17 stig og 10 fráköst.
Washington eru á botni Suð-austur riðilsins með vinningshlutfallið 2-11, en þeir skiptu um þjálfara á dögunum.
New Orleans Hornets unnu fjórða leik sinn í röð í nótt þar sem þeir lögðu Denver Nuggets að velli 105-101.
Chris Paul var með 22 stig og 10 stoðsendingar, en þetta var í 10. skipti í 14 leikjum sem hann nær amk. 20-10 í þessum tölfræðiþáttum. Hann var líka lykilmaðurinn í lokasprettin Hornets og gerði m.a. 7 stig í röð til að jafna leikinn 92-92 þegar um 2 mínútur voru eftir.
Það var svo hin gamalreyndi og trausti James Posey sem gerði út um leikinn með þriggja stiga körfu sem breytti stöðunni í 101-98 þegar 20 sek leifðu af leiknum. Chauncey Billups fékk færi á að koma Denver aftur í forystu, en skot hans geigaði og í framhaldinu gerðu Hornets fjögur stig úr vítum.
Hjá Denver var JR Smith stigahæstur með 32 stig, hans besta frammistaða á tímabilinu, Carmelo Anthony var með 24 stig en Billups náði sér aldrei almennilega á strik.
New Orleans léku án tveggja lykilmanna, Tyson Chandler og Mo Peterson, en Nuggets náðu ekki að færa sér það í nyt.
New Orleans eru á toppi Suð-vestur riðilsins með vinningshlutfallið 9-5, sem er það 3. besta í Vestrinu á eftir Lakers og Phoenix.
Denver eru á toppi Norð-vestur riðilsins ásamt Utahog Portland, en öll liðin eru með vinningshlutfallið 10-6.
ÞJ



