10:53:02
Nóttin var í meira lagi söguleg fyrir marga í NBA. Fyrsta má geta þess að Kevin Durant og félagar hjá Oklahoma City Thunder unnu loks sinn fyrsta sigur síðan 2. nóvember og New York Knicks slógu fjölmörg met í sigri á Golden State Warriors.
Nánar um leikina og úrslit næturinnar hér að neðan: Thunder höfðu tapað 14 leikjum í röð, sem jafnaði það mesta í sögu Oklahoma/Seattle Supersonics, en Memphis Grizzlies sem hafa sjálfir staðið í ströngu í vetur misstu þá fram úr sér í seinni hálfleik.
OJ Mayo átti frábæran leik og virtist ætla að stýra sínum mönnum til sigurs, en í seinni hálfleik tóku Durant og Jeff Green leikinn í sínar hendur og söxuðu smátt og smátt á forskotið þar til Green kom Thunder yfir með tveimur 3ja stiga körfum þegar um 4 mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það skiptust liðin á að leiða þar til Thunder gerði endanlega út um leikinn með góðum endaspretti og voru lokatölur 111-103.
Leikur New York Knicks og Golden State Warriors verður lengi í minnum hafður, en ekki fyrir varnarleik liðanna. Lokatölur leiksins voru 138-125 fyrir New York og það án framlengingar. David Lee (37 stig, 21 frák.), Chris Duhon (12 stig, 22 stoð.) og fyrrum Golden State maðurinn Al Harrington (36 stig, 12 fráköst) fóru allir hamförum í leiknum. Duhon sló 40 ára gamalt félagsmet Richie Guerins yfir flestar stoðsendingar í einum leik, Lee varð fyrsti leikmaður Knicks til að eiga 30/20 leik síðan Patrick Ewing gerði það í janúar 1994. Þá leiddu þeir 82-64 í hálfleik og slógu þar með met Kansas City Kings frá 1979 yfir stig skoruð í hálfleik í Madison Square Garden.
Það sem er kannski ótrúlegast við þessi úrslit er að þetta afrekuðu Knicks á sjö mönnum, en þeir hafa átt í miklum vandræðum með að manna liðið í kjölfar leikmannaskipta og meiðslavandræða. Duhon gekk sjálfur ekki heill til skógar, en hann missti af æfingu í vikunni vegna meiðsla.
Don Nelson, þjálfari Golden State, hrósaði Duhon í hástert eftir leikinn. „Mér finnst Duhon vera aðalmálið í kvöld. Vá, þvílíkur leikmaður! Ég hef kynnt mér hann á myndböndum en það er allt annað að hitta hann fyrir í eigin persónu. Hann hefur allan pakkann. Hann leit út eins og Steve Nash í kvöld. Ótrúleg frammistaða. Það var alveg sama þótt við værum í svæði eða skiptumst á að dekka hann, hann fann alltaf leið til að taka okkur. Virkilega flott frammistaða!“
Duhon sjálfur var nokkuð hógværari, en sagðist bara hafa verið að vinna vinnuna sína. „Þetta eiga leikstjórnendur að gera, koma boltanum á félagana. Ef ég gæti gert þetta á hverju kvöldi væri það frábært því ég elska að gefa boltann og koma honum á strákana. En það sem skiptir mestu máli er að við unnum leikinn.“
Það virðist ekki auðvelt að gera Mike D‘Antoni, þjálfara Knicks, til geðs því hann vildi sjá meira frá sínum mönnum í þessum leik. Þegar hann var spurður út í leik Lees sagði hann: „Hann ætti að hafa skorað 50 stig og tekið 28 fráköst.“ Eins fáránlega og það gæti hljómað var engu að síður nokkuð sannleikskorn í því vegna þess að Lee var ekki með neitt sérstaka nýtingu, 16/29, miðað við það sem hann hefur verið með á ferlinum og miðað við að hann var að leika á móti Golden State, sem er ekki með góða varnarmenn, sérstaklega undir körfunni.
New York er nú á sléttu, 8-8, en Golden State er með vinningshlutfallið 5-12.
Hér fylgja úrslit næturinnar:
Indiana 96
Orlando 110
Atlanta 102
Washington 98
Boston 89
Charlotte 84
Golden State 125
New York 138
Oklahoma City 111
Memphis 103
Denver 106
Minnesota 97
San Antonio 84
Houston 103
New Jersey 105
Utah 88
Cleveland 97
Milwaukee 85
Dallas 101
Sacramento 78
Miami 96
LA Clippers 97
ÞJ



