spot_img
HomeFréttirNaumur Njarðvíkursigur í grannaglímunni (Umfjöllun)

Naumur Njarðvíkursigur í grannaglímunni (Umfjöllun)

23:13
{mosimage}

(Logi Gunnarsson á ferðinni gegn Keflavík)

Ættarmót var í hverju horni Ljónagryfjunnar í kvöld þegar Njarðvíkingar lögðu granna sína í Keflavík 77-75 í vægast sagt sveiflukenndum leik. Allt benti til þess framan af leik að Njarðvíkingar myndu vinna stórsigur en mögnuð barátta Keflvíkinga kom þeim að nýju upp að hlið gestgjafa sinna en Njarðvíkingar héldu haus og unnu mikilvægan sigur. Eftir leiki kvöldsins eru Njarðvíkingar komnir upp í 4. sæti með Keflavík þar sem bæði lið hafa nú 10 stig. Logi Gunnarsson var stigahæstur Njarðvíkinga með 19 stig en hjá Keflavík var Sverrir Þór Sverrisson langbestur með 25 stig.

Leikurinn í kvöld var sögulegur fyrir þær sakir að í fyrsta sinn mætust bræðurnir Valur og Sigurður Ingimundarsynir í úrvalsdeild sem þjálfarar Reykjanesbæjarliðanna. Þá er einnig skemmtilegt frá því að segja að Sverrir Þór Sverrisson lék á móti tveimur ungum frændum sínum í Njarðvíkurliðinu en það eru þeir Óli Ragnar Alexandersson og Andri Fannar Freysson. Það var því ættarmót í hverju horni í kvöld en þrátt fyrir það engin vettlingatök á parketinu.

Það er af sem áður var í viðureignum Njarðvíkur og Keflavíkur hvað snertir áhorfendur og kom það undirrituðum verulega á óvart að það skyldi ekki vera þrengra á pöllunum. Ég man hér eina tíð þegar starfsmenn íþróttahúsanna í Njarðvík og Keflavík voru valdamesta fólkið á Suðurnesjum. Menn, konur og börn flykktust að tæpum tveimur tímum fyrir leik og horfðu hvolpaaugum á starfsmenn íþróttahúsanna sem gáfu sig klukkustund fyrir leik og þá kom maður sér fyrir og beið spenntur eftir grannaslagnum. Í dag er fólk að mæta á slaginu og jafnvel löngu eftir að leikur er hafinn. Vonandi verður bót á þessu máli þegar liðin mætast aftur í Keflavík.

Eins og fyrr segir stefndi allt í að Njarðvíkingar myndu vinna öruggan sigur í kvöld en svo varð ekki. Hjörtur Hrafn Einarsson setti tóninn hjá heimamönnum er hann skoraði þrjár þriggja stiga körfur fyrir Njarðvík með skömmu millibili og kom sínum mönnum í 14-11. Njarðvíkingar voru reyndar funheitir í þristunum í kvöld og settu alls 15 stykki niður í leiknum. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 24-18 fyrir Njarðvík og lofaði upphafsleikhlutinn góðu fyrir næstu þrjá.

Sverrir Þór Sverrisson var að draga vagninn í Keflavíkurliðinu og lítið sem ekkert kom af tréverkinu hjá Keflavík sem áttu í mesta basli sóknarlega. Sævar Sævarsson tók svo við keflinu af Hirti í þriggja stiga skotunum og skoraði þrjá slíka í röð og fagnaði gríðarlega við þann þriðja enda staðan orðin 38-22 Njarðvík í vil og ráðaleysið í herbúðum Keflavíkur algert. Gestirnir voru algerlega á hælunum í fyrri hálfleik og vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið því Logi Gunnarsson setti þrist undir lok fyrri hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergjanna í stöðunni 47-29 heimamönnum í vil og fátt sem benti til þess að Keflvíkingar væru mættir í grannaslag!

Hjörtur Hrafn var stigahæstur í hálfleik hjá Njarðvík með 10 stig og Sævar Sævarsson var með 9 en hjá Keflavík var Sverrir Þór með 17 stig og Jón N. Hafsteinsson 9.

{mosimage}
(Hörður Axel átti fínar rispur fyrir Keflavík í seinni hálfleik)

Hrakfarir Keflavíkur héldu áfram í þriðja leikhluta og vörn Njarðvíkinga var nánast óaðfinnanleg. Gunnar Einarsson gerði fyrstu stig Keflavíkur af vítalínunni í leikhlutanum en þá hitti hann aðeins úr einu af þremur vítum sínum og staðan 50-33 þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af seinni hálfleik.

Flestir ef ekki allir í Ljónagryfjunni bjuggust við að nú yrðu Keflvíkingar niðurlægðir þegar Magnús Þór Gunnarsson kastaði tveimur þristum í röð yfir fyrrum liðsfélaga sína í Keflavík og staðan orðin 64-33. Íslandsmeisturum Keflavíkur var nóg boðið þegar hér var komið við sögu enda gátu þeir ekki sokkið dýpra, heldur fundu botninn og spyrntu við.

Með sterkri vörn tókst Keflavík að saxa á forskot heimamanna og Hörður Axel Vilhjálmsson kveikti von fyrir Keflavík með flautuþrist og minnkaði muninn í 66-48 fyrir fjórða leikhluta.

Framan af fjórða leikhluta voru fá teikn á lofti um að Keflavík ætlaði sér að halda góðum lokaspretti í þriðja leikhluta áfram. Íslandsmeistararnir gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn í níu stig, 74-65 með þrist frá Sverri Þór og svo ennfrekar með þrist frá Gunnari Einarssyni í 74-70 þegar 1.09 mín. var til leiksloka.

Endaspretturinn var svo æsispennandi þar sem sigurinn gat fallið báðum megin. Njarðvíkingar voru augljóslega að verja forskot sitt og voru oft hikandi í sókninni á meðan Keflvíkingar færðust nær. Í stöðunni 76-72 þegar 7 sekúndur voru til leiksloka fékk Gunnar Einarsson tækifæri til þess að minnka muninn í tvö stig en hann brenndi af báðum vítunum og þar með fjaraði leikurinn úr sjón Keflavíkur.

Íslandsmeistararnir gerðu vel að komast aftur að hlið Njarðvíkinga en munurinn var orðinn of mikill og framan af leik höfðu Keflvíkingar einfaldlega farið of illa af ráði sínu gegn sterkri vörn Njarðvíkinga.

Logi Gunnarsson var stigahæstur í Njarðvík með 19 stig, 5 stoðsendingar og 4 fráköst. Næstur honum kom Magnús Gunnarsson með 16 stig og Hjörtur Hrafn Einarsson var með 12. Hjá Keflavík var Sverrir Þór Sverrisson frambærilegastur með 25 stig og 5 fráköst. Næstur kom Hörður Axel Vilhjálmsson með 17 stig.

Tölfræði leiksins
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xNTU=

[email protected]

{mosimage}
(Ef þú atast í nautinu þá færðu hornin!)

{mosimage}
(Sverrir Þór var bestur í Keflavíkurliðinu í kvöld)

Fréttir
- Auglýsing -