12:00
{mosimage}
(Friðrik E. Stefánsson)
Friðrik Erlendur Stefánsson gerði 9 stig og tók 11 fráköst þegar Njarðvíkingar höfðu betur gegn Keflavík í grannaglímu liðanna í Iceland Express deildinni í gærkvöldi. Fyrir leikinn hafði það kvisast út að Friðrik hefði undanfarið verið að glíma við einhver meiðsli en hann kvað þann orðróm í kútinn.
,,Nei nei, ég hefði alls ekki viljað missa af þessum leik og það er heldur ekkert að mér. Ég veit ekki hvað þjálfarinn minn var að flagga einhverjum meiðslum. Ég sagðist aldrei vera meiddur, hann hefur kannski bara haft einhverjar áhyggjur af mér,“ sagði Friðrik vígreifur í samtali við Karfan.is eftir sigurinn í gær.
Leikurinn í gær var nokkuð sveiflukenndur og sagði Friðrik það mistök hjá Njarðvík að hafa farið að verja forskotið sitt í stað þess að halda áfram að sækja. ,,Keflavík kann sinn leik og eru með gott lið svo við máttum alltaf vita að þeir myndu koma með áhlaup en það var gríðarlega sterkt hjá okkur að standa þetta af okkur,“ sagði Friðrik og ljóst að Njarðvíkingar voru greinilega búnir að jafna sig eftir áfallið gegn KR á dögunum.
,,Hvaða KR leik?“ svaraði Friðrik. ,,Það er alltaf bara næsti leikur hjá okkur.“
Ungir og óreyndir leikmenn fengu að spreyta sig í báðum liðum í gær og þannig hefur það verið hjá þessum körfuboltaliðum úr Reykjanesbæ í vetur eftir að erlendu leikmennirnir voru sendir heim.
,,Þetta er það sem við höfum úr að spila í dag og mér finnst núna vera stígandi í okkur og á meðan það er svoleiðis þá er ég sáttur,“ sagði Friðrik en finnur hann fyrir því að Njarðvíkingum vanti leikstjórnanda þegar skotbakverðir eru að koma upp með boltann?
,,Nei nei, það fer bara eftir því hvernig þú lítur á það, vissulega væri ekki verra að hafa leikstjórnanda en eins og ég sagði áðan þá bara vinnum við með það sem við höfum,“ sagði Friðrik.



