spot_img
HomeFréttirMarbury svarar fyrir sig

Marbury svarar fyrir sig

17:19:08
 Sápuóperan í kringum Stephon Marbury og Knicks náði nýjum hæðum í dag þegar leikmaðurinn lét pillurnar ganga í allar áttir í viðtali við New York Post. Þessar fréttir berast á sama tíma og orðrómur þess efnis að hann hafi náð „sátt“ um starfslok hjá Knicks.

Nánar hér að neðan:
Marbury fékk það óþvegið hjá Quentin Richardsson, framherja Knicks, eftir að sá fyrrnefndi neitaði að leika fyrir liðið sem hefur átt í miklum meiðslavandræðum. Marbury svarar fullum hálsi í dag og sallar á alla sem hafa komið að málunum, liðsfélaga sína, þjálfarann Mike D‘Antoni og forseta klúbbsins, Donny Walsh.

Í viðtalinu segir Marbury að félagar hans hafi verið fyrri til að svíkja hann þegar þjálfarinn setti hann út í kuldann í upphafi leiktíðar. Þá hafi Walsh svikið hann þegar 400.000 dalir voru dregnir af launum hans eftir að hann neitaði að stíga út á völlinn. Forsetinn hafi bara heyrt eina hlið á málinu og aldrei rætt við sig um þessar uppákomur.

"Þegar allt fer í háaloft koma gaurar eins og Quentin Richardson og segja að ég sé ekki liðsfélagi og að ég hafi svikið strákana í liðinu. Honum var nákvæmlega sama þegar ég var settur út í kuldann. Þeir sviku mig. Þetta er eins og að vera í skotgröfum og snúa sér undan. Ef ég er skotinn í hausinn væri betra ef það væri einhver úr óvinaliðinu. Ég var skotinn í hausinn af mínum eigin liðsmönnum og fékk ekki einu sinni virðulega útför."

Um D'Antoni sagði Marbury: "Hann ætlaði aldrei að leyfa mér að leika körfubolta hér. Hann sýndi mér mikla vanvirðingu og meira en það. Hann sagði óbeint að hann væri að láta mig finna fyrir því."

Marbury er með leikmannasamtökin að vinna í sínum málum gegn Knicks, en hann heldur því fram að þegar kallað var á hann á bekknum hafi það verið tilboð, en ekki skipun.

Nú er hins vegar verið að reyna að finna nýtt lið fyrir Marbury. Bobcats hafa þegar hafnað honum, en Larry Brown er víst lítið spenntur fyrir að fá þennan gamla lærisvein til sín á nýjan leik. Annar möguleiki er Miami, en Knicks virðast ekki til í það því mikill rígur er á milli liðanna frá fornu fari.

Hvernig sem fer verður þetta mál minnisvarði um það hvernig EKKI á að tækla svona aðstæður. Ef þú ert með gangandi fýlubombu eins og Marbury á liðsskrá og ætlar ekki að nota hann, skaltu ekki vera með hann í kringum liðið í marga mánuði til að breiða út fýluna, heldur þarf að klippa á vandræðin í fæðingu.

Walsh og D'Antoni hafa verið allt of ragir við að klára þetta mál og verða nú að skeina upp eftir sig skítinn.

Heimild: Sports Illustrated/AP

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -