07:54:01
Boston Celtics unnu sinn níunda sigur í röð þegar þeir lögðu Orlando Magic að velli í nótt, 107-88.
Orlando hafa verið sjóðheitir að undanförnu og unnið 11 af síðustu 13 leikjum, en þeir hittu Boston fyrir á góðum degi.
Nánar um leiki næturinnar hér að neðan:
Paul Pierce var stigahæstur Boston-manna með 24 stig og Ray Allen var með 21. Rajon Rondo bætti við 16 stigum og 12 stoðsendingum.
Hjá Orlando var Rashard Lewis með 30 stig og Dwight Howard var með 14 stig, 15 fráköst og 4 varin skot.
Þá vann Charlotte Bobcats kærkominn heimasigur á Minnesota 100-90. Hvorugu liðinu hefur gengið vel í vetur, en Bobcats áttu góðan leik í nótt þar sem Emeka Okafor (24 stig, 10 frák, 5 varin) og Jason Richardson (25 stig) fóru fyrir liði þeirra. Þá var Raymond Felton með 14 stig og 14 stoðsendingar.
Hjá Minnesota voru Mike Miller og Randy Foye með góðan leik, en mikið munaði um að Al Jefferson var ekki að finna sig og gerði aðeins 8 stig.
Golden State fór illa að ráði sínu þegar þeir töpuðu fyrir Miami Heat í nótt, 129-130, í framlengdum leik. Chris Quinn jafnaði metin þegar 7 sek voru eftir af framlengingunni, og strax í framhaldinu stal nýliðinn Michael Beasley boltanum, fékk villu og skoraði úr einu víti. Jamal Crawford, sem gerði 40 stig í leiknum, átti síðasta skotið í leiknum, en það geigaði og Crawford lagðist í gólfið í vonbrigðum sínum á meðan Miami-menn fögnuðu ákaft. Golden State hefur ekki unnið leik síðan Crawford kom til liðsins.
„Þetta var hræðilegur leikur,“ sagði Don Nelson, þjálfari Golden State. „Við gáfum þetta frá okkur í lokin. Nokkur klúður á vitlausum tíma. Ég hélt að við værum með þetta í höndum okkar, en það verður erfitt að ná sér eftir þetta tap.“
ÞJ



