spot_img
HomeFréttirBlikasigur í nágrannaslag (Umfjöllun)

Blikasigur í nágrannaslag (Umfjöllun)

10:34:09

{mosimage}

(Halldór Örn Halldórsson setti stærsta þrist leiksins í gær á ögurstundu)

Það var heldur fámennt í Ásgarði, Garðabæ í gærkvöld þegar Stjarnan tók á móti nágrönnum sínum í Breiðablik. Liðin mættust síðast árið 2007 í úrslitakeppni 1.deildar en þá var það Stjarnan sem fór með sigur af hólmi. Það mátti því búast við hörkuleik og nokkurskonar “Derby” slag.

Bæði lið hófu leikinn sterkt.  Fyrst um sinn komust Blikar í 6-2 forystu en Stjörnumenn voru fljótir að jafna hana út og í stöðunni 11-11 tóku þeir á rás og skoruðu tólf stig í röð. Var þá staðan orðin 23-11 og sá kraftur sem var í Blikum í upphafi leiks virtist strax úr þeim genginn.  Þá tók Einar Árni leikhlé og vonaðist til að koma sínum mönnum aftur á ferð. Það tókst bærilega en Blikar klóruðu smávegis í bakkann þar til í lok fjórðungsins en í lok fyrsta leikhluta var staðan 27-19, heimamönnum í vil.

Annar leikhluti hófst frekar hægt og var hvorugt lið að gera rósir. Blikum tókst mjög illa að hitta í körfuna fyrstu sex mínútur fjórðungsins og hefðu líklega verið kafsigldir hefði Stjarnan ekki glímt við sama vandamál. Þegar um 4 mínútur voru eftir höfðu Stjörnumenn þó 16 stiga forystu, 40-24, og virtist sem allur vindur væri úr Kópavogsbúum. Nemanja Sovic var þó ekki á sama máli og hélt þeim grænu inni í leiknum með vasklegri framgöngu, en Sovic reyndist Stjörnumönnum ansi erfiður í kvöld. Hann bjargaði því sem bjargað varð fyrir leikhlé en í lok fyrri hálfleiks var staðan 45-35, Stjörnunni í vil.

3.leikhluti hófst og tóku liðin að skora til skiptis. Nemanja Sovic var sjóðandi heitur en Fannar Helgason skoraði grimmt fyrir Stjörnuna. Blikar tóku einnig þriggja stiga sýningu en á nokkurra mínútna tímabili hittu þeir úr fimm þristum og skyndilega var munurinn orðinn fjögur stig og Bragi Magnússon þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé. Það leikhlé virtist ekki hafa tilætluð áhrif en Blikar komust enn nær og í lok fjórðungsins var einungis þriggja stiga munur, 68-65, fyrir Garðbæinga og allt útlit fyrir spennandi lokafjórðung.

Blikar mættu mjög grimmir til leiks í fjórða leikhluta og byrjuðu á því að setja þrist, vinna boltann og setja sniðskot og voru þeir þar með komnir yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 10-11.  Stjörnumenn voru ekki á þeim buxunum að leyfa nágrönnum sínum að komast upp með slíkt og hófst æsispennandi lokakafli þar sem liðin skoruðu til skiptis og var munurinn aldrei meiri en 3 stig. Í stöðunni 81-80 fékk Fannar Helgason sína fimmtu villu og var það ekki til að auðvelda Stjörnunni verkið. Þeim tókst þó að halda í við Blika og jafnt var á nánast öllum tölum. Í stöðunni 84-85 skoraði Rúnar Erlingsson úr sniðskoti og kom Blikum í þriggja stiga forystu, en í næstu sókn minnkaði Hilmar Geirsson muninn í eitt stig. Staðan 86-87, 26 sekúndur eftir og spennan ótrúleg. Blikar héldu í sókn og Halldór Halldórsson fékk boltann við þriggja stiga línuna. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina og smellti boltanum beinustu leið ofaní og staðan því orðin 86-90, og var eins og köldu vatni hefði verið skvett framan í Garðbæinga. Blikar sigldu svo skútunni í höfn og lönduðu 87-91 sigri í ansi kaflaskiptum leik.

 

Nemanja Sovic var alger yfirburðamaður í leiknum hvernig sem á það er litið en kappinn skoraði 41 stig og tók 17 fráköst gegn sínum gömlu félögum, en Stjarnan hafði látið Sovic fara í ljósi efnahagsvandans. Hjá Stjörnunni var Fannar Helgason stigahæstur með 21 stig og 9 fráköst.

Tölfræði leiksins

Texti: Elías Karl Guðmundsson

Mynd: [email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -