spot_img
HomeFréttirEinar Árni: Erum á áætlun með okkar markmið

Einar Árni: Erum á áætlun með okkar markmið

13:55
{mosimage}

(Einar Árni í ham)

Þjálfari Breiðabliks, Einar Árni Jóhannsson, var hinn hressasti með 87-91 sigur sinna manna gegn Stjörnunni í Ásgarði í gærkvöldi. Nemanja Sovic fór á kostum og Einar játti því að það hefðu allir mátt vita að Sovic myndi leggja allt í sölurnar gegn Stjörnunni en hann var einn af þeim sem fengu reisupassann þegar ólina herti í efnahagslífi Íslands. Sovic fór í sumar til liðs við Stjörnuna en endaði með Blikum korter í mót. Einar segir Blikana vera á áætlun í markmiðum sínum og segir leikmenn sína hafa sýnt mikla seiglu með sigrinum í gær.

,,Ég var búinn að gera mér grein fyrir því síðustu tvo mánuði að Sovic yrði klár í þennan leik í gær. Það var alveg klárt að hann ætlaði sér að koma í Ásgarð og spila vel en hann ætlar sér alltaf að spila vel en það kitlaði hjá honum að standa sig á móti Stjörnunni,“ sagði Einar en bætti við að þó Sovic hefði átt frábæran leik hefði það verið hjartað í Blikaliðinu sem skilaði sigrinum.

,,Við lendum tæpum 20 stigum undir á kafla og fátt í spilunum hjá okkur en við sýndum þvílíka seiglu með því að koma sterkir til baka og það er miklu mikilvægara að vinna svona leiki heldur en einhverja stórsigra. Þetta sýnir bara að körfuboltaleikur er 40 mínútur og ef menn gefa allt sitt í verkefnið er hægt að uppskera prýðilega.“

Eruð þið komnir með stigin sem tryggja ykkar sæti í deildinni?
Ég held að það sé ekki hægt að bera þetta við síðustu ár því þetta er þannig deild að hún er öðruvísi en flest öll önnur tímabil. Staðan er svo breytileg og liðin í sætum 6-11 eru öll í hrúgu og hver einasti leikur gríðarlega mikilvægur og sérstaklega innbyrðisviðureignir í neðri hlutanum og að vera með 8 stig á þessum tímapunkti er eitthvað sem við erum kátir með. Við viljum alltaf gera betur en ég myndi segja að við værum á áætlun með okkar markmið.

Blikar eru fljótir að grípa í svæðisvörn, hvað kemur til?
Við erum litlir og ekki með ýkja mikinn líkamlegan styrk og erum með ungt lið og erum líka í þeirri stöðu að það vantar Aðalstein Pálsson sem er fyrirliði og öflugur varnarmaður. Þá vantar líka Hjalta Vilhjálmsson sem er gríðarlega mikill karakter og sterkur varnarmaður og þá er Emil Jóhannsson einnig fjarverand og því þurfum við að passa betur upp á villur og vera duglegir að svissa á milli varna en svæðið var engin töfralausn gegn Stjörnunni heldur baráttan. Ég vildi fá fjóra menn á gólfið með Sovic sem voru tilbúnir til að skora körfur og menn bara brugðust við því á réttum tíma.

Þorsteinn Gunnlaugsson er þekktur Bliki sem sagði skilið við Skallagrím fyrr á tímabilinu. Munu við sjá hann dúkka upp í Blikabúning á næstunni?

Það væri óskandi maður, hann er maður með stórt hjarta og við myndum gleðjast ótrúlega mikið en hvort að það gerist hef ég bara ekki hugmynd um.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -