spot_img
HomeFréttirKeflavík sigraði Tindastól (umfjöllun / myndir)

Keflavík sigraði Tindastól (umfjöllun / myndir)


Elvar Sigurjónsson einn af ungu og efnilegu leikmönnum Keflvíkinga kemur iðulega inná með góða baráttu

Keflavík sigraði lið Tindastóls nokkuð örugglega í gærkvöldið með 93 stigum gegn 75. Leikurinn var í raun frekar daufur frá upphafi til enda en það var ekki fyrr en að pressuvörn Keflvíkinga fór að virka að þeir náðu yfirburða forskoti sem skilaði þeim svo sigrinum.

  

Leikurinn í gær var leikinn í skugga andláts eins mesta tónlistarmanns sem Keflvíkingar hafa alið, Rúnars Júlíussonar og í minningu hans léku heimamenn með sorgarbönd.  En leikurinn hófst með smá látum og skiptust liðin á því að skora körfurnar fyrstu mínútur leiksins. Engan mun mátti gera á liðunum fyrr en í öðrum leikhluta að Keflvíkingar sem fram að þessu höfðu leikið fína svæðisvörn fóru að gera gestunum lífið leitt. Hver tapaður boltinn á fætur öðrum fell í hendurnar á heimamönnum. En þau skot sem gestirnir náðu á körfuna virtust rata niður og það fleyti þeim langt.

 Í hálfleik skildu aðeins 5 stig liðin en þá hófu heimamenn að pressa stíft og það réðu gestirnir engan vegin við. Á skammri stundu höfðu Keflvíkingar aukið forskotið í tæp 20 stig og gestirnir vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið.  Það má segja að þriðji fjórðungur hafi verið banabiti gestanna því eftir hann náðu þeir aldrei takti við leikinn og töpuðu að lokum með 18 stigum. Keflvíkingar gerðu vel að loka á Darrel Flake sem skoraði aðeins 16 stig í þessum leik og það munar um minna þegar vantaði Svavar Birgisson sem var í banni. Hjá Keflvíkingum átti Sigurður Þorsteinsson stórleik þegar hann skilaði 28 stigum og reif niður 10 fráköst og allt annað að sjá kappann frá því í síðasta leik gegn Njarðvík.  Annars var það gamla góða baráttan og eljan í vörn heimamanna sem skilaði þeim þessum sigri í kvöld.

Í lið Keflvíkinga vantaði þeirra stigahæsta mann í vetur, Gunnar Einarsson. “Ég á í einhverjum bakmeiðslum. Ég ætlaði ekki að spila leikinn gegn Njarðvík en það er erfitt að sleppa leik gegn nággrönnunum. Ég fékk að kenna á því að hafa spilað þann leik þar sem ég gat varla reimt skóna mina daginn eftir. “ sagði Gunnar í samtali við Karfan.is

Eftir þessi úrslit má segja að gríðarleg spenna er hlaupinn í deildina, þ.e.a.s  um þriðja sætið því Njarðvík, Keflavík og Tindastóll eru öll jöfn að stigum eftir leiki kvöldsins . ÍR og Snæfell koma þar á eftir aðeins 2 stigum á eftir.

Fréttir
- Auglýsing -