spot_img
HomeFréttirSpurs rústuðu Golden State

Spurs rústuðu Golden State

09:33:48
 San Antonio Spurs eru komnir á fleygiferð eftir slaka byrjun á tímabilinu og unnu stórsigur á Golden State Warriors í nótt. Lokatölur voru 123-88, en þetta var 9. tap Warriors í röð.

 

Nánar um NBA-leiki næturinnar hér að neðan:

Spurs, sem geta loks teflt fram sínum sterkustu leikmönnum eftir erfiða meiðslahrinu, áttu leikinn frá upphafi og gátu leyft sér að stíga af bensíngjöfinni á síðustu metrunum. Engu að síður var munurinn 35 stig og hlýtur að fara að hitna undir hinum gamalreynda Don Nelson í þjálfarastólnum.

Engu máli skipti hver komi inn á fyrir SA en allir 12 leikmenn liðsins léku í 12 mín. eða meira. Tim Duncan gerði 20 stig, tók 13 fráköst og 5 stoðsendingar, Tony Parker og Michael Finley gerðu 17 stig og aðrir minna.

Nágrannar Duncan og félaga, Dallas Mavericks, hafa líka verið að rétta úr kútnum og unnu enn einn sigurinn í nótt. Þeir stóðu af sér harða hríð frá Atlanta Hawks í lokaleikhlutanum og unnu tveggja stiga sigur, 100-98.

Phoenix Suns hristu af sér slyðruorðið í nótt þegar þeir lögðu Utah Jazz og slitu þar með fjögurra leikja taphrinu. Það var ekki síst að þakka framlagi Amare Stoudamire sem var með 22 stig og 20 fráköst. Gamla kempan Shaquille O‘Neal var einnig ágætur og skoraði 15 stig og tók 10 fráköst.

Carlos Boozer var fjarverandi í liði Utah líkt og í síðustu 10 leikjum, en Deron Williams var með 15 stig og gaf 15 stoðsendingar. Paul Millsap var með 20 stig og 12 fráköst.

Cleveland er enn á sigurbraut, en þeir unnu Charlotte í nótt. Þetta var 8. sigur þeirra í röð og gátu þeir leyft sér að hvíla LeBron James og Zydrunas Ilgauskas allan 4. leikhluta. Líklegt er að tvö met í sögu Cleveland falli í næsta leik en James jafnaði í nótt met Mark Price fyrir flesta stolna bolta á ferlinum með Cavs og Ilgauskas á fjögur fráköst eftir til að slá frákastamet félagsins sem Brad Dougherty hefur átt síðustu 15 árin eða svo.

Úrslit næturinnar:

Cleveland 94
Charlotte 74

Oklahoma City 99
Miami 105

New Jersey 95
Philadelphia 84

LA Clippers 107
Minnesota 84

Memphis 87
New Orleans 106

Washington 110
Chicago 117

Atlanta 98
Dallas 100

Golden State 88
San Antonio 123

Utah 104
Phoenix 106

Denver 118
Sacramento 85

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -