23:39:21
Kevin McHale, varaforseti Minnesota Timberwolves, steig í dag niður úr sæti sínu og settist í þjálfarastól liðsins eftir að Randy Wittman hafði verið sagt upp þjálfarastöðunni.
Nánar hér að neðan:
Timberwolves hefur gengið afleitlega á leiktíðinni, er með vinningshlutfallið 4-15 og hafa tapað fimm leikjum í röð, flestum með miklum mun.
McHale, sem er flestum kunnugur sem einn af burðarásum Boston Celtics ásamt Larry Bird og Robert Parish á 9. Áratugnum, hefur starfað hjá Minnesota síðan 1995 og þjálfaði liðið hluta leiktíðarinnar 2004-05, eftir að Flip Saunders var rekinn. Undir stjórn McHales var liðið með árangurinn 19-12.
Wittman tók við liðinu fyrir rúmu ári og átti að stýra Wolves inn í nýja tíma eftir brotthvarf Kevin Garnetts, en náði ekki þeim hæðum sem búist var við. Með glænýtt lið í höndunum í fyrra vann hann 22 leiki, en nú í ár var ætlast til meira. Síðasta hálmstráið var stórtap gegn LA Clippers um helgina.
Wittman hafði það orðspor að vera strangur þjálfari, en það er mat forráðamanna liðsins að hann hafi ekki verið að ná til leikmanna lengur og því hafi breytinga verið þörf. McHale þekkir liðið betur en nokkur annar þar sem hann hefur séð um að fá leikmenn til liðsins í áraraðir og nú þarf hann að blása í glæðurnar og sjá hvort hægt sé að tendra upp að nýju.
„Það er eins og strákarnir hafi verið búnir að gefast upp,“ sagði McHale í samtali við fréttamenn. „Þeir eru hins vegar bara búnir að leika 19 leiki og 63 eftir. Það er enginn tími til að bugast. Það er enn nægur tími til að berja sig saman og komast í gang á ný.“
Heimild: Yahoo! Sports
ÞJ
Mynd: McHale á góðri stund með fyrrum lærisvein sínum Kevin Garnett



