spot_img
HomeFréttirMelo jafnaði NBA-met

Melo jafnaði NBA-met

09:59:36
{mosimage}Cleveland Cavaliers, með LeBron James í broddi fylkingar, hélt uppteknum hætti í NBA-deildinni í nótt þar sem þeir lögðu Philadelphia 76ers. Þá unnu Lakers seiglusigur á fáliðuðum Phoenix Suns og Carmelo Anthony jafnaði 30 ára gamalt NBA-met George Gervins, „Ísmannsins“, þegar hann skoraði 33 stig í einum leikhluta gegn Minnesota.

Nánar um leiki næturinnar hér að neðan:
Denver Nuggets – Minnesota Timberwolves

Carmelo Anthony logaði hreinlega í sigri Denver Nuggets á Minnesota í nótt þar sem hann skoraði 45 stig, þar af 33 stig í einum leikhluta. Nuggets, sem voru 12 stigum undir í hálfleik hafa jafnan getað stólað á „Melo“ til að sjá um sóknina, en svona hefur enginn séð í 3 áratugi. Hann hreinlega tók liðið á bakið og óð yfir Úlfana. Það var sama hvaðan skotin komu, þristar, gegnumbrot, stökkskot eða vítaskot, allt virtist ætla ofan í á þessum eftirminnilegu 12 mínútum. Á tímabili skoraði hann meira að segja 26 stig í röð fyrir sitt lið.

Minnesota lögðust hins vegar ekki á bakið þrátt fyrir þetta og létu Nuggets hafa fyrir því í fjórða leikhluta. Anthony, JR Smith og Chauncey Billups voru hins vegar of stór biti til að kyngja og því fór sem fór.

Al Jefferson var stigahæstur Minnestota að vanda, með 26 stig og 12 fráköst, en Nýliðinn Kevin Love kom sterkur inn af bekknum og var með 14 stig og 14 fráköst.

Nuggets er með vinningshlutfallið 15-7, en Úlfarnir með 4-17.

Phoenix Suns- LA Lakers

Phoenix mætti til leiks gegn Lakers ansi fámennir þar sem þremur leikmönnum var skipt frá liðinu í nótt og Shaquille O‘Neal var fjarverandi þar sem amma hans lést nýlega.

Þá má segja að Steve Nash hafi varla mætt til leiks fyrr en í seinni hálfleik, en hann var í sjokki yfir því að besti vinur hans, Raja Bell, væri á leiðinni til Charlotte og klikkaði á fyrstu 8 skotum sínum í leiknum.

Engu að síður var leikurinn jafn og spennandi þar sem Lakers náðu ekki forskotinu fyrir fullt og allt fyrr en í fjórða leikhluta.

Framherjinn Matt Barnes átti góðan leik fyrir Suns og var með 25 stig og 10 fráköst, Amare Stoudamire var með 21/11 og gamla brýnið Grant Hill var með 23 stig.

Hjá Lakers var Pau Gasol bestur með 28 stig, Kobe Bryant var með 18 stig og Andrew Bynum var með 17/11.

Lakers er með vinningshlutfallið 18-3 og Suns eru með 13-10.

New Jersey Nets – NY Knicks

Sóknarbolti Mike D‘Antoni hefur svo sannarlega skilað sínu í New York það sem af er hans fyrsta tímabili með liðið, en í nótt lögðu þeir granna sína í NJ Nets að velli, 121-109.

Eftir erfiðan fyrsta leikhluta þar sem Nets leiddu með 10 stigum hrukku Knicks í gang og voru eldheitir í sókninni eftir það. Nýju mennirnir Al Harrington (39/13/3) og Tim Thomas (26 stig, 5 af 8 í 3ja) fóru fyrir sínum mönnum, en Devin Harris átti enn einn stórleikinn fyrir Nets og skoraði 32 stig og gaf 7 stoðsendingar.

Cleveland Cavaliers – Philadelphia 76ers

Cleveland Cavaliers virðast ekki ætla að gefa eftir í toppslag NBA-deildarinnar og unni í nótt sinn 10. Leik í röð. Fórnarlömbin að þessu sinni voru Philadelphia 76ers, en lokatölur voru 101-93.

LeBron James var með 29 stig fyrir Cavs og Mo Williams 27. Hjá 76ers var Andre Iguodala með 27 stig, en þeirra helsta stjarna, Elton Brand, átti hræðilegan leik og kláraði með einungis 6 stig á pappírnum og 7 tapaða bolta að auki þar sem hann var tekinn í bakaríið af Zydrunas Ilgauskas og Ben Wallace.

Hér fylgja úrslit næturinnar:

Indiana 88
Toronto 101

New York 121
New Jersey 109

Charlotte 89
New Orleans 105

Memphis 108
Oklahoma City 102

Cleveland 101
Philadelphia 93

Atlanta 89
San Antonio 95

Minnesota 105
Denver 116

Phoenix 110
LA Lakers 115

Milwaukee 96
Golden State 119

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -