13:30
{mosimage}
(Jón Arnar í miðri leikhlésræðu)
ÍR hefur unnið fimm síðustu deildarleiki sína í röð eftir að hafa tapað fyrstu fimm deildarleikjunum á tímabilinu. Liðið hefur nú 10 stig í 6. sæti deildarinnar og tekur á móti Tindastól í Seljaskóla kl. 19:15 í 16 liða úrslitum Subwaybikarsins í kvöld. Karfan.is ræddi við Jón Arnar Ingvarsson þjálfara ÍR um uppganginn hjá hans mönnum og leikinn í kvöld.
ÍR hefur unnið 5 síðustu leiki sína í deild, var fnykurinn af ósigrunum orðinn óbærilegur eða er þetta Hreggviður sem gerir gæfumuninn?
Það er fyrst og fremst gott hugarfar í hópnum sem hefur leitt okkur á rétta braut. Liðið þurfti að endurskipuleggja verkaskiptingu og leikplanið eftir að útlendingarnir voru sendir á braut, jafnframt því þá höfum við átt við meiðsl og svoleiðis vesen sem gerði þessa aðlögun lengri. Hreggviður er auðvitað mjög mikilvægur póstur í þessu hjá okkur og hans innkoma gerir okkur miklu mun líklegri.
Þið áttuð glæst tímabil í fyrra en síðustu tvö ár hefur verið að kvarnast úr ákveðnum kjarna í liðinu, sérðu að þið getið náð sambærilegum árangri þessa leiktíðina og í fyrra?
Við viljum búa til farveg fyrir jákvætt og uppbyggilegt hugarfar og með því getum við náð góðum árangri. Ef viljinn og trúin eru nógu sterk þá förum við þangað sem okkur langar.
Er það inni í myndinni hjá ÍR á þessari leiktíð að bæta við sig erlendum leikmanni?
Það er ekki mitt að ákveða það. En ég tel augljóst að svo verður ekki.
Þið fáið Tindastól í heimsókn í bikarnum á fimmtudag og það er ekki langt síðan þið unnuð þá stórt í deildinni, hvað var það í deildarleiknum hjá ykkur sem varð banabiti Stólanna og við hverju býst þú í kvöld?
Nú við vorum komnir nokkuð þétt upp við vegg og komum brjálaðir til leiks. Þeir hittu ekki á góðan leik og fátt sem gekk upp hjá þeim. Tindastóll er með mjög vel mannað lið og við þurfum mjög góðan leik til að ná sigri í kvöld.



